Lög, menning, trú

Einkar athyglisvert mál er komið upp hér í Danaveldi (þar sem ég er í smá sumarfríi) og er um það fjallað m.a. í Politiken 1. ágúst. Um er að ræða íraskan mann, sem vann sem túlkur fyrir herlið Dana í Írak. Eftir að ljóst fór að vera að algert upplausnarástand væri að taka völdin í Basra sem og annars staðar í hinu sundurtætta Írak – og að danski herinn væri á leið heim (er kominn heim á skrifandi stundu og var látið fara sem minnst fyrir því) – sótti maðurinn um flóttamannahæli í Danmörku.

Danir hafa haldið hliðum sínum vel lokuðum fyrir aðkomufólki síðustu árin, en þessi maður taldi sig hafa allar ástæður til að vera hleypt inn. En sá galli var á gjöf Njarðar að maður þessi á tvær eiginkonur, eins og tíðkast hjá mörgum í hans heimshluta. Og er hluti af menningunni, eins og sagt er svo oft. Samkvæmt lögum er fjölkvæni bannað í Danmörku, en túlkurinn íraski hefur fengið stuðning úr átt sem margir hefðu talið ósennilega. Nokkrir þekktir kirkjunnar menn hafa tjáð sig um málið og sett fram þá skoðun sína að maðurinn eigi að fá að búa með báðum konum sínum, sem hann er jú löglega kvæntur og kemur sem slíkur til landsins ásamt konum sínum tveimur. Bent var á að margir mikils metnir „forfeður“ júdeó-kristni (og islam), þ.á.m. Abraham, Jakob og Davíð konungur hafi átt fjöldan allan af konum og sand af börnum. Þekktir danskir trúmenn á borð við biskupinn í Viborg, Karsten Nissen, dómprófastinn í Kaupmannahöfn, Anders Gadegaard og guðfræðinginn Svend Andersen eru einróma um að það væri ómanneskjulegt að krefjast þess að Írakinn skildi við aðra konuna. Auk þess væri hvergi minnst á það í Biblíunni að þetta hjúskaparform væri bannað samkvæmt Guðs lögum. Telja mætti að valið væri ómögulegt og ómanneskjulegt og að slíkur skilnaður mundi svifta konuna sem hann neyddist til að skilja við mikilvægum lagalegum réttindum og stofna lífi hennar og barni/börnum (hann á þrjú börn með konunum) í hættu. Jesper Langballe, sem er oft kallaður svarti klerkurinn (sökum þröngsýni sinnar, fordóma og harðlyndis) er ekki sammála kollegum sínum. Hann segir að samkvæmt lögum sé fjölkvæni bannað í Danmörku. Punktur. Út með aðra konuna (les = þau öll)! Þetta er nokkuð lýsandi fyrir skilning svartklerksins, sem er einnig þingmaður fyrir danska þjóðarflokkinn (Dansk Folkeparti = DF), á kristilegum mannkærleika. En það sem er einnig athyglisvert er að ýmsir feministar hafa tjáð sig sammála klerkinum svarta á þeim forsendum að fjölkvæni sé birtingarmynd mismununar og kúgunar á konum og stríði auk þess á móti jafnréttislögum jafnt sem kvennasáttmála SÞ. Allir sem að málinu koma eru sammála um eitt: að það sé erfitt, en af ólíkum ástæðum.

Þetta mál er mjög athyglisvert því það veltir upp spurningum um réttindi: jafnrétti, mannréttindi, trúarleg og menningarleg réttindi og borgaraleg réttindi – og lög. Þegar lög þjóðríkisins eru komin í málið ásamt Lögunum (trúarbragða – ritningar) verður þessi samsuða öll frekar flókin. Mannfræðingurinn Gerd Baumann bendir á í bók sinni The Multicultural Riddle, Rethinking National, Ethnic, and Religious Identities (1999) að hugmyndir manna um réttindi séu nákvæmlega það: hugmyndir. Hann bendir á nokkur dæmi, í ætt við þetta umrædda mál, þar sem spurningin um réttindi, eða rétt fær sjaldnast annað en mótsagnakennd svör. Hann heldur því fram að það muni alltaf vera mjög erfitt, jafnvel ógjörningur, að framfylgja réttindum allra í sama þjóðfélagi/ríki, hvað þá í öllum heiminum – ríki hafa líka ólíka hagsmuni. Hagsmunir ríkisins (festir í lögin) og hagsmunir ólíkra hópa – menningarlegir, trúarlegir eða etnískir – geti auðveldlega rekist á. Sérstaklega telur hann erfitt að eiga við trúarlega sannfæringu fólks, einkum þá sem færð hefur verið í ritningar, því þar sé um að ræða Lög, sem séu lögunum æðri. Þar sé sannleikurinn, eðli sínu samkvæmt, hafinn yfir nokkurn vafa. Einnig getur fólk haft óhaggandi pólitískar skoðanir (og vísað í skoðanafrelsi) og krafist tiltekinna réttinda þeirra vegna sem geta auðveldlega stangast á við hugmyndir (lög) ríkisins, sem þó á að standa vörð um skoðanafrelsið. Og fjölmörg dæmi hafa verið til um mismunandi útfærslu réttinda eftir etnerni (sbr. t.d. blökkumenn í USA og S-Afríku ekki fyrir svo löngu síðan, Sama í Noregi eða frumbyggja USA, svo eitthvað sé nefnt). En Baumann leggur áherslu á þá staðreynd að þessir þættir, þ.e. menning, trú, etnerni og þjóðerni (tengt borgaralegum réttindum og lögum) eru alltaf að breytast og að einstaklingar eiga það til að skipta um þessa „tilheyrsluþætti“ eftir hentugleikum og aðstæðum, auk þess sem hver og einn búi yfir mörgum sjálfsmyndum sem geta verið mjög sveigjanlegar, allt eftir samhenginu. Ekkert af þessu er óbreytanlegt, samkvæmt Baumann (og flestum fræðimönnum sem fjalla um þessi mál).

Samkvæmt mannréttindasáttmála SÞ eru mannréttindi algild, en er það fullkomlega raunhæft? Um þetta hefur verið mikið deilt og þeir sem hafa sett spurningamerki við algildi mannréttinda hafa verið ásakaðir um óforsvaranlega menningarlega afstæðishyggju sem réttmætir hvers kyns yfirgang og kúgun, allt í nafni menningarinnar. Það má skjóta því inn hér að samið hefur verið uppkast (sem ég held að sé gildandi – þarf að athuga það betur) að mannréttindasáttmála frumbyggja um heim allan. Þar er tekið tillit til aðstæðna og lífsskilyrða sem eru ólík þeim sem gilda í hinum iðnvædda heimi þjóðríkja. Með þessu er það viðurkennt að það er ekki hægt að setja alla í sama bás, þ.e bás hins ráðandi meirihluta. Þessi sáttmáli miðar m.a. að því að vernda landréttindi og samfélagsform frumbyggja, sem eru jafn fjölbreytileg og þau eru mörg og er þeim oft ógnað af hagsmunum þjóðríkja og/eða stórfyrirtækja.

Hægt er að þvinga hugmyndum eins hóps um réttindi yfir á annan án þess að sá kæri sig um það. Umræðan um slæðunotkun múslimskra kvenna er eitt dæmi um þetta. Taka má fram að milljónir hindúakvenna bera einnig slæður og milljónir múslimakvenna bera ekki slæður. Er það ekki réttur hvers einstaklings að ákveða það sjálf? Sú umræða er of löng og margþætt fyrir þennan pistil, en að henni mun verða vikið seinna.

Eins og ég vona að hafi komið í ljós, þá er hugmyndin um réttindi, svo maður tali nú ekki um jöfn réttindi, ekki eins einföld og margir vilja halda. Mismunandi hópar fólks hafa mismunandi hugmyndir um þennan þátt tilverunnar eins og aðra og margir kæra sig ekki um að vera þvingaðir af öðrum til að vera sammála. Svo gæti maður haldið að það væru sjálfsögð mannréttindi að eignast þak yfir höfuðið og eiga í sig og á. Ættum við ekki að byrja þar? Sumstaðar hefur fólk stjórnarskrárbundinn rétt til að eiga skotvopn og að nota þau. Eru það réttindi sem allir eiga að vera sammála um? Svona mætti lengi halda áfram en ég hef hugsað mér að velta þessum málum upp síðar og þá sér í lagi mismunandi viðhorfum um hvað réttindi eru. Réttur er álíka snúið hugtak og frelsi, enda hanga þau á sama prikinu. Meira um þetta seinna.

Auglýsingar

3 svör to “Lög, menning, trú”

 1. Jon Helgi Says:

  Áhugavert!

  Eitt megininntak Mannréttindasáttmála SÞ er að mismuna ekki fólki og þar með talið á grundvelli trúarbragða. Í Danmörku eru lög og það kann ekki góðri lukku að stýra að mismuna mönnum og skiptir þar engu hvaða trú eða skoðanir viðkomandi hefur. Ef ég hef þá skoðun/trú að ég geti tekið lögin í mínar hendur ef mér finnst svo vera og skjóta mann og annan þá er það hugsanlega mín skoðun/trú en ef það er á skjön við lög í mínu samfélagi þá verður það að víkja eða ég – nema að þú viljir stjórnleysi sem vissulega margir aðhyllast.

  Spurningarnar eru því væntanlega tvær. Í fyrsta lagi hvort allir sem búa í samfélaginu eiga að vera jafnir fyrir lögum? Í öðru lagi eru lögin sanngjörn?

  Hvort lögin séu sanngjörn eða ekki í þessu tilviki er flókið mál og hef enga skoðun á því (mikil forréttinda að þurfa ekki að hafa skoðun!) en á meðan lögin eru eins og þau eru þá þykir mér einsýnt að maðurinn þarf að fara að lögum eða flytja í samfélag sem leyfir fjölkvæni.

  KK
  Jon Helgi

 2. Erla S Says:

  Sífellt eru að koma upp mál sem ekki eru til skýr svör við, eins og bígamistinn frá Írak er gott dæmi um. Annað dæmi eru blessuðu slæðurnar; er fólk á móti slæðum vegna þess að þær eru púkó, vegna þess að það þykist sjá Tyrkjaránið vera að endurtaka sig eða vegna þess að það óttast að konurnar hvorki geti né þori að hugsa sjálfar? Hvenær erum við að yfirfæra okkar vestrænu viðmið yfir á annað fólk í besta kúltúrimperíalistastíl og hvenær erum við að sýna óþarfa skilning á einhverri bölvaðri vitleysu? Hér eru engar flokkslínur skýrar og raunveruleikinn er sífelld áskorun fyrir t.d. femínista sem eru engan veginn sammála um hvernig túlka eigi og bregðast við fjölbreytileikanum. Mál tvítyngda bígamistans má skoða frá ýmsum sjónarmiðum, t.d. hvernig er hægt að troða fjölskyldunni inn í danskt kennitölu- og skattakerfi 😉

 3. kristhors Says:

  Algildi réttinda þýðir það: algildi. Að mega skjóta einhvern í landi A en ekki í landi B er ekki algilt. Samkvæmt dönskum lögum – eftir því sem lagasérfræðingar segja í dag, eftir að hafa klórað sér í hausnum – þá gildir bann við fjölkvæni í Danmörku ekki hvað varðar löglegt fjöl/tvíkvæni sem er löggilt í öðru landi (þar sem giftingin átti sér stað). En slík ráðstöfun, þ.e. gifting er bönnuð í DK. Þannig að það er hvorki lagaleg né trúarleg forsenda fyrir því að banna íraska túlkinum að flytja til Danmerkur með spúsur sínar tvær. Það má segja að það séu fyrst og fremst fordómar ákveðins stjórnmálaflokks í DK, þ.e. DF, gegn útlendingum sem gæti skapað moldviðri út af þessu máli. Íraski túlkurinn er ekki að brjóta dönsk lög með því að flytja til landsins með kellur sínar tvær. Og um sanngirni eða skynsemi margra laga má deila um þangað til kusurnar koma heim.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s


%d bloggurum líkar þetta: