Einkarekinn stríðsgróði

Eins dauði er annars brauð, segir sígilt máltæki. Samkvæmt þessari grein er stríð í sívaxandi mæli orðið einkarekinn bissniss, sem eins og allur annar slíkur, krefst ávöxtunar til handa hluthöfum og bakhjörlum. Sumir hafa litið á árásina á írak sem yfirgripsmikla viðskiptaáætlun, þ.e. að ná völdum yfir olíulindum landsins. Það lítur næstum því svo út í dag að sú áætlun hafi mistekist. En sá hryllingur sem á sér stað í Írak í dag er augljóslega feit fjárþúfa fyrir einkarekin stríðsfyrirtæki. Þessir einkareknu málaliðar eru ekki bara að „störfum“ í miðausturlöndum, heldur út um allan heim, og þeim tengjast einnig í vaxandi mæli einkareknar njósnastofnanir, sem bera ekki ábyrgð gagnvart ríkisvaldinu, heldur hluthöfum. Þessi markaðsvæðing stríðsreksturs er af áður óséðri stærð í sögu nútímans. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að til að tryggja afkomu þessarar starfsgreinar þurfa að vera stríð einhvers staðar í heiminum og ef til þarf, að búa þau til.

Ein af algengustu og viðurkenndustu skilgreiningum á þjóðríkinu er að það hefur einkaleyfi á beitingu þvingunarvalds og ofbeldis, bæði innan marka þess og utan. Eins og sjá má af ofannefndri grein eru sumir orðnir uggandi yfir þessari þróun, því þessi hornsteinn þjóðríkisins, þ.e. einkaleyfi á ofbeldi, gæti átt á hættu að dreifast og færast til einkaaðila, sem bera ekki ábyrgð gagnvart ríkinu/landinu, heldur hluthöfum og bakhjörlum. Fyrir hverja eru þessir tindátar að berjast? Hverjum bera þeir hollustu? Hver hefur stjórn á þeim? Við þessar spurningar má örugglega bæta, en þær eru allar lögmætar.

Hér má sjá heilagt samráð vopnaframleiðenda og einkaherja, sem sjá sér leik á borði að mata krók sinn feitt, ásamt öfgafullum sértrúarhópum, en eins og kemur fram í nefndri grein þá er forsprakki eins helsta málaliðafyrirtækisins (Blackwater), öfgafullur kristinn hægri repúblikani (Eric Prince). Margir af hans líkum trúa á heimsendaspár Opinberunarbókar Jóhannesar, og að þeir séu að leggja hönd á plóginn við að stuðla að Endinum. Og ekki er verra að fara með feitan bankareikning til himnaríkis, gróða eyðileggingarinnar. En það sem er eiginlega kaldranalegast við þetta er að þessir einkareknu vígamenn hafa fullan stuðning valdamestu stjórnmálamanna heims, sem deila bæði tilganginum og meðalinu.

Það er ein hlið á þessu máli sem er vert að athuga aðeins. Þjóðríkið er tiltölulega ný uppfinning og lýðræði einnig, og er hvorugt sjálfgefið. Þjóðríkið var eiginlega búið til sem umgjörð – stærri en tíðkast hafði áður – um stórvaxandi auðsöfnun í kjölfar nýlendustefnunnar og iðnbyltingarinnar og aðgang að meiri fjölda manna til vinnu og til stríðsreksturs: til að framleiða meira og verja ágóðann en einnig til að komast yfir auð annarra. Það þurfti í auknum mæli að manna verksmiðjurnar og herinn. Í dag lítur heimurinn allt öðru vísi út. Framleiðslan (vinnan) er flutt til þriðja heimsins, þar sem nóg er til af ódýru vinnuafli, auðurinn er orðinn alþjóðavæddur og, eins og sést hefur hér, þá er réttur til ofbeldis orðinn einkavæddur og alþjóðavæddur meira en áður þekktist. Á sama hátt og auður og framleiðsla hefur fólk í vaxandi mæli alþjóðavæðst – flust á milli heimshluta og útvíkkað svokallað þjóðerni sitt. Hvað verður þá eftir handa þjóðríkinu?

Ef og þegar valdbeiting og ofbeldi, ásamt upplýsingasöfnun (njósnum) er komið á þetta stig, hvernig mundi það líta út ef t.d. lýðræði eins og við þekkjum það í dag, og sem kostaði svita, tár og blóð, yrði afnumið af valdamestu stofnunum heims? Hvað mundu þeir gera við allar þær upplýsingar sem þeir hafa safnað um „okkur“? Hvernig lög og reglur mundu þeir setja? Þessum spurningum er vert að gefa gaum, t.d. í samhengi við alls kyns gagnabanka sem er alltaf verið að koma upp, leynt og ljóst, og samkeyrslu rafrænna upplýsinga um neysluvenjur og ferðir fólks. Nú þegar eru stjórnvöld í USA og Bretlandi (og víða annars staðar) búin að herða tök sín á frelsi fólks og eru í auknum mæli að draga til baka alls kyns borgaraleg réttindi í nafni öryggis.

Einkaherir og aðrar vafasamar en öflugar stofnanir gætu með þessu áframhaldi sölsað undir sig völdin í heiminum og skapað algerlega nýja heimsmynd. Eru öryggisventlar nútíma þjóðríkis nógu öflugir til að sporna við þessu? Stendur lýðræði nægilega föstum fótum? Eru alþjóðastofnanir á borð við SÞ nógu sjálfstæðar og sterkar til að koma í veg fyrir svona (hugsanlega) þróun? Var viðskiptaáætlunin „árásin á Írak“ ekki framkvæmd í óþökk „alþjóðasamfélagsins“, þ.e. SÞ?

Þessar hugleiðingar um nokkuð sem gæti mögulega gerst, en þyrfti að sjálfsögu ekki að gera það, ættu að undirstrika mikilvægi þess að borgarar heimsins séu vakandi gagnvart valdinu, bæði hinu löglega og sýnilega sem og hinu falda. Saga síðustu aldar ætti að nægja til að gera sér grein fyrir því að það er ekki mikið mál að skipta út stjórnskipulagi og afnema rétt og búa til ný lög.

Auglýsingar

Eitt svar to “Einkarekinn stríðsgróði”

 1. Baldur Says:

  Sæll,

  Og til hamingju með nýja bloggsetrið!

  Ég er alveg sammála þér hvað varðar þessa ugnvænlegu þróun að stríð séu orðin einkarekin af fyrirtækjum sem hafa enga ábyrgðarskyldu við almenning. Fyrir utan Blackwater eru margir tugir slíkra málaliðafyrirtækja til, það nægir að fletta þeim upp á Wikipedia til að fá nasaþefinn af umfangi þessa geira. Málaliðafyrirtækjum var geysimikill akkur í því hvernig Rumsfeld og pótintátar hans ákváðu að reka Íraksstríðið hið nýja. Með notkun þeirra er t.d. komið í veg fyrir að almenningur verði mikið var við mannfallið þar sem hættulegustu verkefnin eru oft falin slíkum fyrirtækjum. Mannfall í röðum málaliða eru aðeins neðanmálslína í ársreikningi málaliðafyrirtækja og verður þar af leiðandi ekki að stórpólitísku máli í Bandaríkjunum. Benda má að mannfallið í Víetnam var ein af stærstu ástæðunum fyrir því hversu það stríð varð óvinsælt og mikilvægt á pólitískum vettvangi. Þó að núverandi stríð í Írak sé orðið afar óvinsælt meðal almennings er það samt sem áður að mestu utan við daglega tilveru almennings. Áberandi jarðarfarir hersins eru þess vegna orðnar fátíðar á meðan málaliðarnir fá annað hvort venjulga greftrun almúgamannsins eða bara hreinlega grafnir þar sem þeir féllu í Írak.
  Þangað til almenningur í BNA gerir sér grein fyrir því hversu gífurlegar lántökur hafa átt sér stað til að fjármagna stríðið og það hversu afar skuldsett bandaríska ríkið er orðið, þá má kannski fara að sjá mótmælagöngur. Það skondna er að lánsféð er að langmestu leyti fengið erlendis frá, meðal annars að stórum hluta frá Evrópu, Kína og auðmönnum í Saudi Arabíu.

  Bkv, Baldur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s


%d bloggurum líkar þetta: