Sjálfsmorðssprengjur og aðrar sprengjur

Hér er fjallað um málefni sem hefur verið mikið í umræðunni og valdið óhug flestra. Mannfræðingurinn Talal Asad tók sig til og skrifaði bók um þetta fyrirbæri og ber hann þar saman ýmsar tegundir ofbeldis – löglegs og ólöglegs – sjálfsmorðssprengjur (og önnur ógnarverk) og hernaðaraðgerðir ríkisvalds. Ef smellt er á „skrifaði bók“ er m.a. hægt að lesa inngang Asads að bókinni. Hann spyr sjálfan sig hvort til sé eitthvað sem kalla megi ógnarverk knúin áfram af trúarbrögðum. Ef svo er, á hvaða hátt eru þau öðru vísi en önnur tegund grimmdar? Hvað er það sem gerir þessa hvatningu – annað en þann einfalda ásetning að drepa – trúarlega? Hvernig stendur þessi tegund grimmdar í samanburði við aðrar gerðir opinbers ofbeldis? Hvernig er ímynd sjálfsmorðssprengjumannsins, sem kálar sjálfum sér og öðrum, litin af kristnum mönnum og post-kristnum? Spyr Talal Asad. Hann snýr sér að skrifum mannfræðinga um að ógn (terror) sé upplausn félagslegrar og persónulegrar sjálfsvitundar og forms almennt. Samkvæmt Asad er krossfesting Krists frægasta sjálfsmorð í sögunni og hann telur að hryllingur sá er tengist henni hafi verið ummyndaður í það að frelsa mannkyn – fyrir tilstilli samtengingar grimmdar og samkenndar – og að þessi frásögn/goðsögn hafi alltaf heillað menn og búi yfir miklum krafti.

Asad segir að það sem honum finnist athyglisvert sé, að hversu mikið sem við reynum að greina á milli siðferðislega góðs og siðferðislega ills máta að drepa, feli það í sér miklar mótsagnir sem geri okkur erfitt fyrir. Megin hugmynd Asads er að tilurð ógnar og framkvæmd ógnarverka séu birtingarmyndir hernaðaraðgerða í heimi sem einkennist af ójöfnuði, hugmynda okkar um hvað sé grimmd og hvað sé nauðsyn, og þeirra tilfinninga um það hvort ákveðin tegund dráps sé réttmætanleg eða fordæmanleg.

Asad ber þannig saman tegundir ofbeldis, eina sem er framkvæmd af ríkisvaldinu (með hervaldi) og annarrar sem er framin af hópum utan valdasviðs ríkisins, og ofast gegn því. Ofbeldi ríkisvaldsins einkennist m.a. af lögmætingu og réttmætingu sem sé samtenging grimmdar og ástríðu sem þróaðar þjóðfélagslegar stofnanir hvetja til og gera kleift. Hann bendir á að ofbeldi af þessu tagi hafi á bak við sig skipulag og afl sem t.d. ógnarverkasveitir búi ekki yfir.

Hugmyndafræði þjóðríkisins getur þannig löggilt ofbeldi sem það beitir öðrum í stríðsrekstri sínum. Ef ógnarverkamaður sprengir sjálfan sig upp og tekur önnur mannslíf með sér er það glæpur, og getur ekki verið annað en illska. Ef sprengjur úr F16 þotu drepa hóp saklausra íbúa bæjar eða borgar, er það kallað hliðarverkanir (colateral damage). Dráp ríkisvaldsins er réttmætt, er nauðsynlegt, dráp ógnarverkamannsins er glæpur og illska. En hvoru tveggja býr yfir sínum innri rökum og nauðsyn og yfir eigin réttmætingu.

Asad varar við því að lesendur bókarinnar misskilji erindi hans. Hann leggur áherslu á að hann er ekki að halda því fram að verk ógnarverkamanna geti nokkurn tíma verið siðferðislega réttmætanleg. Honum finnst það vera mjög áhrifamikið hversu auðvelt það er fyrir hið nútímalega þjóðríki að tortíma og glundra lífi á miklu öflugri hátt en nokkurn tíma áður og að ógnarverkamenn muni aldrei geta orðið jafn árangursríkir í sínum eyðileggingum. Það sem Asad finnst merkilegt er að það eru ekki drápin og afmennskunin sem skiptir mestu máli heldur hvernig þau eiga sér stað og hvað liggur að baki.

Í lok inngangsins tekur Asad það fram að erindi hans sé engan vegin að benda á haldbæra lausn á þessu þverstæðukennda vandamáli stofnanavædds ofbeldis. Né heldur dettur honum í hug að hægt sé að viðurkenna eina tegund ofbeldis andstætt annarri. Von hans er að lesandinn verði fyrir nægilegri truflun svo hann/hún geti litið á þetta flókna mál úr fjarlægð í stað þess að gleypa allt sem fjölmiðlar og stjórnmálamenn bera á borð fyrir fólk á frekar einhliða hátt.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s


%d bloggurum líkar þetta: