Íslam og veraldarhyggja

Hér langar mig að viðra hugmyndir franska fræðimannsins og Íslamsérfræðingsins Olivier Roy, en hann hefur einkum rannsakað Íslam í Evrópu og tengsl Íslam við evrópska þjóðríkið og veraldarvæðingu. Hann telur það ekki gefið að öll samfélög þurfi að ganga í gegnum sama ferlið og vesturlönd til að tileinka sér lýðræði. Hvað varðar Íslam er ein forsendan sú að gamlar hefðir eru að missa tökin í mörgum samfélögum, ekki síst meðal evrópskra múslima. Hin umdeilda kenning um árekstra siðmenninga, þar sem forsendan var að menning væri grundvölluð á trúarbrögðum og trúarbrögð hefðu þar af leiðandi áhrif á hina pólitísku menningu, er að hruni komin (ef hún þá stóð nokkurn tíman á fótunum). Roy bendir á að ákveðin aftenging eigi sér stað á milli tveggja veruleika: menningarlegra hefða og endurmyndun trúarlegra gilda og hefða óháð sérstökum tilteknum menningum. Þessi þróun er, segir Roy, eitt af afkvæmum hnattvæðingar sem hefur farið sigurför um heiminn. Roy telur vandamálið með Íslam, hvað varðar þessa aftengingu, vera að hún styrki fúndamentalisma ekki síður en frjálslynd viðhorf til trúmála, hvað þá veraldarhyggju. Þetta sést t.d. á því að lýðræðislegar kosningar í löndum múslima hafa oft komið íslamískum flokkum til valda (sbr. Alsír, þó barið á bak aftur; Hamas í Palestínu). Vegna andúðar og hræðslu við áhrif Íslamista hafa vesturveldi stutt veraldlegar harðstjórnir í miðausturlöndum í þeirri von að koma á veraldlegu samfélagi (hvort sem það er yfirskin eða ekki). Afleiðingin er sú að í hugum almennings í þessum löndum tengist veraldleg stjórn einræði og kúgun, studd af vestrænum vopnum og peningum (einhvers konar ný-nýlendustefna), en lýðræðislegar kosningar tengjast Íslamistum. Samkvæmt Roy mun lýðræði í miðausturlöndum ekki virka án einhvers konar ríkisforms (sbr. Hamas í Palestínu, þó að við mjög erfiðar aðstæður sé). En hvað með Íslam?, spyr Roy. Það að vilja byggja lög/samfélag á sharía virðist þjóna þeim tilgangi að friðþægja Íslamista og byggja þannig upp eigin ríkisvitund gegn hinni hröðu „vesturvæðingu“. Við þetta verður til mjög íhaldsöm útgáfa af Íslam, byggð á ströngum lögum og einstrengingslegum siðferðislegum gildum. Annað sem Roy bendir á er hin vaxandi einstaklingsvæðing trúariðkunar og endurskoðun trúarbragða án íhlutunar hinna hefðbundnu menninga, reynsluheim minnihlutahópa (á vesturlöndum – „annarrarkynslóðarinflytjendur“) í vestrinu og virkjun lýðræðis til að losna við (veraldlega) einræðisherra. Þessa þætti telur Roy að munu smám saman síast ínn í vitund fólks án þess að minnka vægi trúarvitundar. Það er ekki hægt að þvinga á lýðræði utan frá, en Roy telur að ákveðið ferli lýðræðisvæðingar sé að eiga sér stað á forsendum Íslam, og telur hann Tyrkland vera gott dæmi, en þar hefur sá flokkur sem er við völd og sem hingað til hefur verið talinn íslamískur tengt saman lýðræði, trúarbrögð og kapítalisma (a la „protestan ethic of capitalism“). Roy telur hvorki þvingaða veraldarvæðingu né fjölmenningarhyggju vera svarið, því hvort tveggja gangi út frá því að það séu órjúfanleg bönd á milli etnískrar menningar og trúar, þ.e. að t.d. Íslam sé afmörkuð og eðlislæg menning (og þar með ósamræmanleg veraldlegri hugsun). Roy bendir á að menningarlegar skírskotanir séu að minnka á kostnað trúarlegrar sjálfsvitundar á eigin forsendum, að rof eigi sér stað á milli trúar og menningar/samfélags (sem geti leitt til fúndamentalisma og einangrunar). Flestir múslimar á vesturlöndum vilja vera viðurkenndir bæði sem múslimar og borgarar innan ramma hinna evrópsku þjóðríkja í stað þess að vera skilgreindir sem einhvers konar etnískur/menningarlegur minnihluti. En það er á brattan að sækja því þeir þurfa viðvarandi að horfast í augu við þá fordóma að trú og menning sé það sama og þar af leiðandi munu þeir lengst af vera „útlendingar“, eða framandi „hinir“ og oftar en ekki lúta í lægra haldi í baráttunni um gæði samfélagsins og þannig endurskapa og viðhalda ákveðinni jaðarstöðu sem lágstétt og fjarlægð við „meirihlutassamfélagið“.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s


%d bloggurum líkar þetta: