Archive for mars, 2008

Fitna farsinn – frelsisþjófar

mars 28, 2008

Ég rakst á nokkrar blaðagreinar um „mynd“ hollenska hægri öfgamannsins Geert Wilders, Fitna. Á vef Danmarks Radio , er frétt um komandi lögsókn Kurt Westergaard (Múhameðsteikningar, muniði?) gegn Geert Wilders vegna „þjófnaðar“ hans á teikningum KW af spámanninum (hvað er þetta með þessa hægri öfgamenn, af hverju þurfa þeir alltaf að stela frá öðrum?). Þetta er næstum því fyndið. Danskur „islamforsker“ segir í Politiken að þessi „mynd“ fjalli ekki um tjáningarfrelsi heldur eingöngu til að ögra fólki. Sama sagði hægrikonan Hirsi Ali. OK? Danski pólitíkusinn Naser Khader vill meina að „myndin“ sé í fyrsta lagi léleg og illa gerð og finnst asnalegt að stjórnvöld í Hollandi séu að skipta sér af þessu (hrædd við útflutning á túlipönum??). Hvað með að Wilders sé asnalegur, eða bara asni? Þessi „mynd“ sé ófrumleg endurvinnsla á gömlum klisjum og hann ypptir bara öxlum yfir kjánaskapnum. Demogogus Primus Dana, hægrifanatíkerinn Pia Kjærsgaard, reynir að æsa sig upp og segja okkur að við höfum „rétt“ til að móðga og ögra af því að öfgamenn séu raunveruleiki. Flott rök. En besta greinin er eftir breskan múslim sem ég hef talað um áður, sem er Ali Eteraz. En hann skrifar skemmtilega íróníska grein um þessa svokölluðu „mynd“ og gefur henni falleinkun, í fyrsta lagi fyrir ófrumlegheit og hugmyndafátækt (=“ritstuldur“, hægri öfgamenn aftur!). Það besta við „myndina“ sé soundtrackið eftir Tjækofskí. Ég mæli með þessari ágætu grein (og öðrum pistlum Ali Eteraz) sem konklúderar eiginlega á því að „idiots recognise one another“, og á þar við danspör eins og Wilders og „Íslamista“ sem nærast á hatri hvors annars. Einnig bendir Ali á að „mynd“ Wilders sé léleg eftirlíking (enn einn þjófnaður (ritstuldur) hægri öfgamanna, hvað er þetta eiginlega!?!) á óteljandi áróðursvídeóum öfgafullra Íslamista, en sé lélegri og viðvaningslegri, fyrir utan soundtrackið, sem sé byggt á vögguvísu frá Georgíu. Leiðtogar múslima í Hollandi hafa ásett sér að þegja þetta „listaverk“ í hel og langflestir múslimar hrista bara hausinn yfir þessum Hannesi Hólmsteini þeirra Hollendinga. Er ekki komið að því að menn hætti þessum fíflagangi og hætti að nota „tjáningafrelsi“ sem gólftusku eða klósettpappír? Mér er bara spurn.

Auglýsingar

Konur og „menning“ í Kína, Íran og Ísrael

mars 19, 2008

Ég var að rekast á nokkrar greinar um kvenn-imama í Kína (takk Erla), partígellur í Íran og blæjuberandi gyðingakonur í Ísrael. Já, svei mér þá! Í norðvesturhéruðum Kína hefur Íslam verið stundað síðan árið 650, valdhöfum ríkisins í miðjunni til nokkurs pirrings allar götur síðan – sem er varla frásögu færandi. En á þessu svæði er hefð fyrir að konur stjórni moskum og standi fyrir bænahaldi og allri annarri starfsemi, nema að kalla til bæna og leiða bænir karla. Það gerist með karlrödd í gegnum hátalara á veggnum frá nærliggjandi karlamosku. Umrædd grein er m.a. viðtal við hina 68 ára gömlu Ding Gui Zhi,sem hefur starfað sem imam um langt skeið. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að Íslam í Kína hafi kínversk áhrif og hafi rætur í kínverskri menningu. Staða kínverskra múslima hefur oft legið undir þrýstingi stjórnvalda, og nefnir konan sérsaklega tímabil „menningarbyltingar“ Mao Zedong sem „hörðu árin“. Það þarf varla að taka það fram að hugmyndafræði Maos (kommúnismi) byggðist á vestrænni veraldarhyggju á sama hátt og nazismi og fasismi. En það er önnur Ella. Ungar konur á umræddu svæði sækja sumar í að menntast sem imamar, einkum til að lyfta sér úr fátækt og kúgun en einnig af trúarlegum áhuga og lærdómsfýsn. Þetta er ein birtingarmynd Íslam (kínverskir múslimar á þessu svæði eru um 10 milljónir). Svo rakst ég á grein um partístand ungra kvenna í Tehran. Eins og margir vita, þá er stundaður nokkuð skír aðskilnaður karla og kvenna í hinu opinbera rými í flestum múslimasamfélögum. Partígellurnar í Tehran viðhalda (með hjálp siðgæðislöggunnar) þessari skiptingu með því að hittast og partía í lokuðum, földum lókölum, þar sem slæðan fellur, diskóið dunar og landa er jafnvel lyft í glasi. Þær segja að væntanleg menningarbylting hinnar mjög svo fjölmennu ungu kynslóðar byrji heima og/eða á svona stöðum. Þessi breyting er einnig að vinda upp á sig á kaffihúsum og á götum úti. Stiginn er skrítinn feludans þar sem báðir aðilar sjá hvor annan, horfast í augu og athuga hvor blikkar fyrst. Þessi kynslóð (sem er yfirgnæfandi hlutfall í Íran) hefur ekki mikið álit hvorki á klerkum né öðrum valdhöfum landsins, enda eru þeir logandi hræddir við þessa kynslóð. Að lokum sá ég merkilega grein um blæjubylgju meðal gyðingakvenna í Ísrael. Þar segir að hin raunverulega ástæða blæjunotkunar kvenna í miðausturlöndum sé að öllum líkindum löngu grafin í sandinn (varð hún kannski til vegna hans?). En umræddar gyðingakonur sem hafa tekið upp á því að ganga með blæju hafa verið stimplaðar sem geðsjúkar af rabbínum (sem eru allir karlar). Þessar konur vísa í heilaga texta Biblíunnar þar sem talað er um blæjunotkun kvenna við vissar aðstæður (t.d. Genesis 24:65). Í kjölfar þessarar „geðsjúku“ hegðunar hóps gyðingakvenna hafa menn farið að leita uppi heimildir í Gamla Testamentinu um blæjunotkun kvenna (oftast hefðarkvenna, eins og upprunalega var hjá múslimskum konum á sínum tíma). Þetta dæmi sýnir mögulega að arabar og gyðingar eigi sér að hluta til sameiginlegar rætur í sandinum, sem ætti ekki að vera óeðlilegt á meðal nágrannafólks. Vert til umhugsunar varðandi tengsl trúar, menningar og pólitíkur og hvernig hægt er að hrúga saman alls kyns fyrirbærum úr mörgum áttum og eðlisgera sem einhverja eina menningu, og tala t.d. um sem „íslamska menningu“, eða „kristna menningu“, eða „gyðingamenningu“ en það er vafasamt hvort slíkt sé yfirhöfuð til sem eitthvað eitt og samstætt. Samt er auðvelt og algengt að hnoða byssukúlur úr alls kyns samkrulli og demba því yfir saklaust fólk, eins og allt of mörg dæmi fyrr sem nú sanna, sem bendir á nauðsyn þess að gera sér grein fyrir því að menning er ekki föst, heilstæð stærð, heldur síbreytilegt ferli viðhorfa og athafna sem skarast á ótal vegu í mannheimum. Einhver sagði einu sinni að menning væri eins og fljótið hans Heraklítusar, en í það var bara hægt að stinga tánni einu sinni og aldrei aftur því fljótið er aldrei það sama, það er síbreytilegt þótt það virðist ekki breytast á yfirborðinu. Hættulegasta vopn óþokka sögunnar er eðlisgerfing menningar: „gyðingar eru svona, svona er þeirra menning, en okkar er æðri“. Allir vita hvernig það fór. Í dag er viðkvæðið: „þessi múslimska menning ógnar okkar menningu, sem er betri og æðri“. Þetta er hættulegt og heimskulegt, en getur komið mönnum á þing og til valda en einnig skapað hatur með skelfilegum eyðileggingum. Það má benda á að þetta ferli og þessi eðlisgerfing menningar (þar sem trúarbrögðum er beitt sem menningu) lifir enn góðu lífi á Balkanskaganum og allir ættu að muna hver birtingarmynd þessarar hugmyndafræði var, fyrir ekki svo löngu síðan. Og eins og Ghandi benti á þegar einhver nýlenduherrann ræddi um „vestræna menningu“ við hann, svaraði hann með því að segja að það væri ábyggilega góð hugmynd.

„Cool Islam“ í Frakklandi & fleira

mars 10, 2008

Það hefur mikið verið rætt um slæður, sharía, og annað í þeim dúr á þessari síðu. Ég hef þegar bent á nokkur atriði sem sýna að Íslam er sennilega að gangast undir veigamiklar breytingar, einkum á vesturlöndum – og er að öllum líkindum á afgerandi tímamótum. Ég benti á Kóran-bloggið á guardian.co.uk, þar sem fram fer opin umræða og frjálsleg túlkun á súrum Kóransins. Einnig benti ég á umfjöllun um róttæka aðgerð sem tyrknesk stjórnvöld eru að hrinda af stokkunum. Stór sveit fræðimanna: Íslamsérfræðinga, heimspekinga (líka frá „vestrinu“) og kristinna guðfræðinga hafa fengið það verkefni að ráðast í að gera róttæka endurskoðun á HADITH bálkunum (sem eru lagalegur grundvöllur íslam), kassera sumu og uppfæra annað. Einnig er verið að mennta hundruðir kvenna sem imama til að senda þær í sveitir landsins. Þetta lítur út fyrir að vera alger bylting. Svo eru ferskir straumar meðal franskra múslima, sem sumir vilja kalla „cool Islam“. Er hér um að ræða hreyfingu meðal ungra múslima á sviði listsköpunar, viðskipta og trúariðkunar. Þekktur franskur rappari og múslimi er með þann boðskap í tónlist sinni að múslimar eigi að taka fullan þátt í hinu veraldlega samfélagi og að allir – kristnir, múslimar, gyðingar, trúlausir – allir Frakkar – eigi að geta sameinast undir merkjum mannúðar og annarra sammannlegra gilda, sem öll trúarbrögð – og húmanismi – leggja áherslu á. Sjálfur er þessi rappari trúaður, praktíserandi múslimi (hann heitir Medine, fékk nafn sitt frá Medina). Fleiri ungir, franskir múslimar eru farnir að sameina viðskipti, listir og gildi hins veraldarvædda samfélags, án þess þó að láta af trú sinni. Þeir segjast vilja leggja eitthvað jákvætt og uppbyggjandi að mörkum til samfélagsins. Í greininni er viðtal við unga múslimska konu sem er að máta hefðbundna vestræna brúðarkjóla, en hún segir ungar múslimskar konur í auknum mæli giftast í venjulegu, hvítu brúðardressi, þó svo að imam sjái um vígsluna. Á endanum er rætt við imam að nafni Tariq Oubrou, sem vill bylta túlkun íslamskra texta og uppfæra þá í samræmi við nútímann og vestræn sekúlar samfélög. Hann vill fá kristna fræðimenn og heimspekinga til að leggja sitt af mörkum við þessa byltingu. Þetta er það sama og Tyrkir (= tyrkneska ríkið) eru að gera. En það er nokkuð dæmigert að þessar aðgerðir fá takmarkaða athygli í vestrænum fjölmiðlum sem selja fleiri eintök með því að birta æsifréttir um hættulega æsingamenn sem ætla sér að tortíma vestrænni menningu (sem Ghandi sagði að væri ágætis hugmynd, þ.e. vestræn menning).