„Cool Islam“ í Frakklandi & fleira

Það hefur mikið verið rætt um slæður, sharía, og annað í þeim dúr á þessari síðu. Ég hef þegar bent á nokkur atriði sem sýna að Íslam er sennilega að gangast undir veigamiklar breytingar, einkum á vesturlöndum – og er að öllum líkindum á afgerandi tímamótum. Ég benti á Kóran-bloggið á guardian.co.uk, þar sem fram fer opin umræða og frjálsleg túlkun á súrum Kóransins. Einnig benti ég á umfjöllun um róttæka aðgerð sem tyrknesk stjórnvöld eru að hrinda af stokkunum. Stór sveit fræðimanna: Íslamsérfræðinga, heimspekinga (líka frá „vestrinu“) og kristinna guðfræðinga hafa fengið það verkefni að ráðast í að gera róttæka endurskoðun á HADITH bálkunum (sem eru lagalegur grundvöllur íslam), kassera sumu og uppfæra annað. Einnig er verið að mennta hundruðir kvenna sem imama til að senda þær í sveitir landsins. Þetta lítur út fyrir að vera alger bylting. Svo eru ferskir straumar meðal franskra múslima, sem sumir vilja kalla „cool Islam“. Er hér um að ræða hreyfingu meðal ungra múslima á sviði listsköpunar, viðskipta og trúariðkunar. Þekktur franskur rappari og múslimi er með þann boðskap í tónlist sinni að múslimar eigi að taka fullan þátt í hinu veraldlega samfélagi og að allir – kristnir, múslimar, gyðingar, trúlausir – allir Frakkar – eigi að geta sameinast undir merkjum mannúðar og annarra sammannlegra gilda, sem öll trúarbrögð – og húmanismi – leggja áherslu á. Sjálfur er þessi rappari trúaður, praktíserandi múslimi (hann heitir Medine, fékk nafn sitt frá Medina). Fleiri ungir, franskir múslimar eru farnir að sameina viðskipti, listir og gildi hins veraldarvædda samfélags, án þess þó að láta af trú sinni. Þeir segjast vilja leggja eitthvað jákvætt og uppbyggjandi að mörkum til samfélagsins. Í greininni er viðtal við unga múslimska konu sem er að máta hefðbundna vestræna brúðarkjóla, en hún segir ungar múslimskar konur í auknum mæli giftast í venjulegu, hvítu brúðardressi, þó svo að imam sjái um vígsluna. Á endanum er rætt við imam að nafni Tariq Oubrou, sem vill bylta túlkun íslamskra texta og uppfæra þá í samræmi við nútímann og vestræn sekúlar samfélög. Hann vill fá kristna fræðimenn og heimspekinga til að leggja sitt af mörkum við þessa byltingu. Þetta er það sama og Tyrkir (= tyrkneska ríkið) eru að gera. En það er nokkuð dæmigert að þessar aðgerðir fá takmarkaða athygli í vestrænum fjölmiðlum sem selja fleiri eintök með því að birta æsifréttir um hættulega æsingamenn sem ætla sér að tortíma vestrænni menningu (sem Ghandi sagði að væri ágætis hugmynd, þ.e. vestræn menning).

Eitt svar to “„Cool Islam“ í Frakklandi & fleira”

  1. Erla Sigurðardóttir Says:

    Þú segir fréttir! Mikið er ég fegin að þú tekur þessi mál saman því fréttastofur gera það svo sannarlega ekki. Umræðan í dönskum fjölmiðlum snýst í hringi, hraðar og hraðar – ég held að tígrisdýrin verði að smjöri eins og barnabókinni sem við lásum á seinni hluta síðustu aldar. Þessi fjölbreytni sem þú segir frá kemst engan veginn til skila í fréttum. Haltu endilega áfram, nú veit ég hvar ég á að lesa fréttirnar. Kær kveðja frá Kaupmannahöfn!

Færðu inn athugasemd