Konur og „menning“ í Kína, Íran og Ísrael

Ég var að rekast á nokkrar greinar um kvenn-imama í Kína (takk Erla), partígellur í Íran og blæjuberandi gyðingakonur í Ísrael. Já, svei mér þá! Í norðvesturhéruðum Kína hefur Íslam verið stundað síðan árið 650, valdhöfum ríkisins í miðjunni til nokkurs pirrings allar götur síðan – sem er varla frásögu færandi. En á þessu svæði er hefð fyrir að konur stjórni moskum og standi fyrir bænahaldi og allri annarri starfsemi, nema að kalla til bæna og leiða bænir karla. Það gerist með karlrödd í gegnum hátalara á veggnum frá nærliggjandi karlamosku. Umrædd grein er m.a. viðtal við hina 68 ára gömlu Ding Gui Zhi,sem hefur starfað sem imam um langt skeið. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að Íslam í Kína hafi kínversk áhrif og hafi rætur í kínverskri menningu. Staða kínverskra múslima hefur oft legið undir þrýstingi stjórnvalda, og nefnir konan sérsaklega tímabil „menningarbyltingar“ Mao Zedong sem „hörðu árin“. Það þarf varla að taka það fram að hugmyndafræði Maos (kommúnismi) byggðist á vestrænni veraldarhyggju á sama hátt og nazismi og fasismi. En það er önnur Ella. Ungar konur á umræddu svæði sækja sumar í að menntast sem imamar, einkum til að lyfta sér úr fátækt og kúgun en einnig af trúarlegum áhuga og lærdómsfýsn. Þetta er ein birtingarmynd Íslam (kínverskir múslimar á þessu svæði eru um 10 milljónir). Svo rakst ég á grein um partístand ungra kvenna í Tehran. Eins og margir vita, þá er stundaður nokkuð skír aðskilnaður karla og kvenna í hinu opinbera rými í flestum múslimasamfélögum. Partígellurnar í Tehran viðhalda (með hjálp siðgæðislöggunnar) þessari skiptingu með því að hittast og partía í lokuðum, földum lókölum, þar sem slæðan fellur, diskóið dunar og landa er jafnvel lyft í glasi. Þær segja að væntanleg menningarbylting hinnar mjög svo fjölmennu ungu kynslóðar byrji heima og/eða á svona stöðum. Þessi breyting er einnig að vinda upp á sig á kaffihúsum og á götum úti. Stiginn er skrítinn feludans þar sem báðir aðilar sjá hvor annan, horfast í augu og athuga hvor blikkar fyrst. Þessi kynslóð (sem er yfirgnæfandi hlutfall í Íran) hefur ekki mikið álit hvorki á klerkum né öðrum valdhöfum landsins, enda eru þeir logandi hræddir við þessa kynslóð. Að lokum sá ég merkilega grein um blæjubylgju meðal gyðingakvenna í Ísrael. Þar segir að hin raunverulega ástæða blæjunotkunar kvenna í miðausturlöndum sé að öllum líkindum löngu grafin í sandinn (varð hún kannski til vegna hans?). En umræddar gyðingakonur sem hafa tekið upp á því að ganga með blæju hafa verið stimplaðar sem geðsjúkar af rabbínum (sem eru allir karlar). Þessar konur vísa í heilaga texta Biblíunnar þar sem talað er um blæjunotkun kvenna við vissar aðstæður (t.d. Genesis 24:65). Í kjölfar þessarar „geðsjúku“ hegðunar hóps gyðingakvenna hafa menn farið að leita uppi heimildir í Gamla Testamentinu um blæjunotkun kvenna (oftast hefðarkvenna, eins og upprunalega var hjá múslimskum konum á sínum tíma). Þetta dæmi sýnir mögulega að arabar og gyðingar eigi sér að hluta til sameiginlegar rætur í sandinum, sem ætti ekki að vera óeðlilegt á meðal nágrannafólks. Vert til umhugsunar varðandi tengsl trúar, menningar og pólitíkur og hvernig hægt er að hrúga saman alls kyns fyrirbærum úr mörgum áttum og eðlisgera sem einhverja eina menningu, og tala t.d. um sem „íslamska menningu“, eða „kristna menningu“, eða „gyðingamenningu“ en það er vafasamt hvort slíkt sé yfirhöfuð til sem eitthvað eitt og samstætt. Samt er auðvelt og algengt að hnoða byssukúlur úr alls kyns samkrulli og demba því yfir saklaust fólk, eins og allt of mörg dæmi fyrr sem nú sanna, sem bendir á nauðsyn þess að gera sér grein fyrir því að menning er ekki föst, heilstæð stærð, heldur síbreytilegt ferli viðhorfa og athafna sem skarast á ótal vegu í mannheimum. Einhver sagði einu sinni að menning væri eins og fljótið hans Heraklítusar, en í það var bara hægt að stinga tánni einu sinni og aldrei aftur því fljótið er aldrei það sama, það er síbreytilegt þótt það virðist ekki breytast á yfirborðinu. Hættulegasta vopn óþokka sögunnar er eðlisgerfing menningar: „gyðingar eru svona, svona er þeirra menning, en okkar er æðri“. Allir vita hvernig það fór. Í dag er viðkvæðið: „þessi múslimska menning ógnar okkar menningu, sem er betri og æðri“. Þetta er hættulegt og heimskulegt, en getur komið mönnum á þing og til valda en einnig skapað hatur með skelfilegum eyðileggingum. Það má benda á að þetta ferli og þessi eðlisgerfing menningar (þar sem trúarbrögðum er beitt sem menningu) lifir enn góðu lífi á Balkanskaganum og allir ættu að muna hver birtingarmynd þessarar hugmyndafræði var, fyrir ekki svo löngu síðan. Og eins og Ghandi benti á þegar einhver nýlenduherrann ræddi um „vestræna menningu“ við hann, svaraði hann með því að segja að það væri ábyggilega góð hugmynd.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s


%d bloggurum líkar þetta: