Archive for the ‘Alþjóðamál’ Category

Hugmyndafræði/flóð

febrúar 15, 2008

Nokkrir smá punktar, meðan ég er á vatnspumpuvaktinni í kjallaranum. Fyrst langar mig að benda á þá mjög svo fínu umræðu um Kóraninn og íslam á Kóranbloggi Guardian. Þar skiptast margir áhugasamir og lærðir á skoðunum hvað varðar merkingu þessarar merku bókar. Fólk setur spurningamerki við margt, er ósammála um enn fleira en allt er á siðsamlegum nótum, fátt um öfgafull útbrot. Mæli með þessari sérstöku bloggsíðu fyrir áhugafólk um þetta viðfangsefni. En að allt öðru. Þar sem ég bograði yfir vatnspumpunni rifjaðist upp fyrir mér ákveðið atriði – út frá hræðsluhugmyndum „okkar“ um ógn Austursins meðal okkar. Ef litið er á 20. öldina og öll þau yfirgengilegu ógnarverk sem voru framin á því merka tímabili, liggur í augum uppi að þau trúarbrögð, og þær öfgar sem forrituðu þær skelfingar var vestræn veraldarhyggja (kommúnismi, nasismi, fasismi, og kapítalismi): Hitler, Stalín, Pol Plot, Franco, Pinoche, Maó, þarf að fara lengra? Svo maður minnist nú ekki á Nýlendustefnuna (sem hafði verið í gangi í hálft árþúsund – og er enn). Það má jafnvel nefna hinn hnattvædda kapítalisma nútímans í sömu andrá, sem hefur rústað heilu samfélögunum á okkar dögum. Það er ekki svo vitlaust að halla huganum aðeins að hlut þessara hugmyndafræða hvað varðar ómældar hörmungar af manna völdum. Sú ógn sem við teljum steðja af íslömskum ógnarverkamönnum (ég ætla ekki að taka hanskann upp fyrir ofbeldi af neinu tagi, aldrei) eru smámunir miðað við þann hrylling sem framinn var í nafni veraldarhyggjunnar á 20. öld, og oftast undir fána framfara. Hér er bara bent á þetta til að setja hluti í smá sögulegt samhengi. Kveikjan að þessum hugleiðingum, svona fyrir utan vatnspumpuna í kjallaranum, var fullyrðing greinarhöfundar í nýjasta Mannlífi um að ákveðin hræðsluáróðursbók dönsk væri „stórmerkileg og afar þörf“ um eitt mesta vandamál vesturlanda (sjá síðustu færslu). Við ættum að líta okkur nær hvað varðar ógnarverk og almenn illindi, „við“ höfum verið fullfær um að sinna þeim í gengum tíðina, og okkur hefur líka tekist bærilega í seinni tíð að flytja þá starfsemi til fjarlægra landa, undir sömu formerkjum og áður og fengið sumt af því í hausinn aftur. Þarf að fara niður og huga að flóðpumpunni.

Auglýsingar

Slæðan aftur

febrúar 15, 2008

Einfaldur klútur sem konur vefja um höfuð sér, einkum múslimskar konur, er orðin miðpunktur umræðu á vesturlöndum. Tyrkir voru nýlega að breyta lögum varðandi slæðuna á þá leið að konum er leyfilegt að bera hana innan svæða háskóla, en það hafði verið bannað áratugum saman til að undirstrika hina veraldlegu (secular) stöðu tyrkneska ríkisins. Ég hef áður fjallað um þetta fyrirbæri á þessi bloggi en hér er aðeins öðru vísi nálgun.

Þetta einfalda höfuðfat, eða slæða, er farið að hafa ótrúlega mikla og táknhlaðna merkingu í Evrópu og Tyrklandi, sem skilgreina sig sem veraldleg (secular) menningarsvæði. Eins og áður hefur verið rætt, þá skiptir sköpum hvernig hlutir (eða fólk) eru skilgreindir. Er slæðan trúarlegt tákn múslimskra kvenna? Milljónir múslimskra kvenna ganga EKKI með slæðu. Er slæðan upprunalega skjól gegn sólarljósinu? Sandfoki? Er slæðan upprunalega menningarleg og með staðbundin einkenni? Ganga ekki margar eldri/trúaðar (kristnar) konur á Grikklandi, Spáni, Rússlandi og Ítalíu líka með slæður? Af hverju talar einginn um það? Slæðan virðist vera orðin fyrst og fremst tákn sjálfsákvörunaréttar ungra múslimskra kvenna í Evrópu, tákn menningarlegrar staðsetningar og sjálfsmyndarsköpunar. Á þann hátt má sjá slæðuna sem blöndu af pólitískri/menningarlegri staðhæfingu og tísku. Mini-pilsin á 7. áratugnum voru bæði tíska og tákn um aukið kynferðislegt frelsi kvenna samfara tilurð p-pillunnar. Að sumu leyti er slæðan orðin kvenfrelsistákn eins og mini-pilsin, þó birtingarmyndin sé ólík og pólitískur undirtónn sterkari, en að sama skapi hættulegur. Er þetta ekki líka spurning um vald á opinberu rými? Fer það kannski í taugarnar á „heimamönnum“ að „gestirnir/hinir“ skuli voga sér að setja svona áberandi og einkennandi svip á götumyndina? Þetta er kannski ekki svo einfalt. Þjóðríkið (t.d. Frakkland eða Tyrkland) vill þvinga ákveðna þjóðfélagshópa með lögum til að haga sér á ákveðinn hátt á forsendum ríkisins, þar sem hugmyndin er sú að allir eigi að lúta sömu kvöðum að ofan. Er ekki litið á slæðunotkun ungra (og oft vel menntaðra og upplýstra evrópskra kvenna) sem óþekkt eða allt að því uppreisn gegn ríkjandi gildum? Andspyrna gegn status quo? Það má líta á þetta frá ýmsum hornum, en að halda því fram að slæðan í þessu samhengi sé engöngu tákn kúgunar karlaveldisins og feðraveldistrúar er gróf einföldun og stenst ekki skoðun. Sumar konur ganga með slæðu vegna trúhneigðar en alls ekki allar. Slæðan er sem sagt orðið mjög öflugt og flókið tákn en það eru þeir sem vilja banna hana sem hafa gefið þessum klút þetta tákngildi. Þegar þrýstingur ríkisvaldsins verður of mikill gegn ákveðum hópum eykst andspyrnan að sama skapi: Því meira mál sem stjórnvöld gera úr slæðunni þeim mun útbreyddari verður hún, hún verður tákn menningarlegs sjálfstæðis og þjóðfélagslegs andófs. Tákn íhaldseminnar breytist í tákn félagslegrar óhlíðni.

Sjálfsmorðssprengjur og aðrar sprengjur

ágúst 21, 2007

Hér er fjallað um málefni sem hefur verið mikið í umræðunni og valdið óhug flestra. Mannfræðingurinn Talal Asad tók sig til og skrifaði bók um þetta fyrirbæri og ber hann þar saman ýmsar tegundir ofbeldis – löglegs og ólöglegs – sjálfsmorðssprengjur (og önnur ógnarverk) og hernaðaraðgerðir ríkisvalds. Ef smellt er á „skrifaði bók“ er m.a. hægt að lesa inngang Asads að bókinni. Hann spyr sjálfan sig hvort til sé eitthvað sem kalla megi ógnarverk knúin áfram af trúarbrögðum. Ef svo er, á hvaða hátt eru þau öðru vísi en önnur tegund grimmdar? Hvað er það sem gerir þessa hvatningu – annað en þann einfalda ásetning að drepa – trúarlega? Hvernig stendur þessi tegund grimmdar í samanburði við aðrar gerðir opinbers ofbeldis? Hvernig er ímynd sjálfsmorðssprengjumannsins, sem kálar sjálfum sér og öðrum, litin af kristnum mönnum og post-kristnum? Spyr Talal Asad. Hann snýr sér að skrifum mannfræðinga um að ógn (terror) sé upplausn félagslegrar og persónulegrar sjálfsvitundar og forms almennt. Samkvæmt Asad er krossfesting Krists frægasta sjálfsmorð í sögunni og hann telur að hryllingur sá er tengist henni hafi verið ummyndaður í það að frelsa mannkyn – fyrir tilstilli samtengingar grimmdar og samkenndar – og að þessi frásögn/goðsögn hafi alltaf heillað menn og búi yfir miklum krafti.

Asad segir að það sem honum finnist athyglisvert sé, að hversu mikið sem við reynum að greina á milli siðferðislega góðs og siðferðislega ills máta að drepa, feli það í sér miklar mótsagnir sem geri okkur erfitt fyrir. Megin hugmynd Asads er að tilurð ógnar og framkvæmd ógnarverka séu birtingarmyndir hernaðaraðgerða í heimi sem einkennist af ójöfnuði, hugmynda okkar um hvað sé grimmd og hvað sé nauðsyn, og þeirra tilfinninga um það hvort ákveðin tegund dráps sé réttmætanleg eða fordæmanleg.

Asad ber þannig saman tegundir ofbeldis, eina sem er framkvæmd af ríkisvaldinu (með hervaldi) og annarrar sem er framin af hópum utan valdasviðs ríkisins, og ofast gegn því. Ofbeldi ríkisvaldsins einkennist m.a. af lögmætingu og réttmætingu sem sé samtenging grimmdar og ástríðu sem þróaðar þjóðfélagslegar stofnanir hvetja til og gera kleift. Hann bendir á að ofbeldi af þessu tagi hafi á bak við sig skipulag og afl sem t.d. ógnarverkasveitir búi ekki yfir.

Hugmyndafræði þjóðríkisins getur þannig löggilt ofbeldi sem það beitir öðrum í stríðsrekstri sínum. Ef ógnarverkamaður sprengir sjálfan sig upp og tekur önnur mannslíf með sér er það glæpur, og getur ekki verið annað en illska. Ef sprengjur úr F16 þotu drepa hóp saklausra íbúa bæjar eða borgar, er það kallað hliðarverkanir (colateral damage). Dráp ríkisvaldsins er réttmætt, er nauðsynlegt, dráp ógnarverkamannsins er glæpur og illska. En hvoru tveggja býr yfir sínum innri rökum og nauðsyn og yfir eigin réttmætingu.

Asad varar við því að lesendur bókarinnar misskilji erindi hans. Hann leggur áherslu á að hann er ekki að halda því fram að verk ógnarverkamanna geti nokkurn tíma verið siðferðislega réttmætanleg. Honum finnst það vera mjög áhrifamikið hversu auðvelt það er fyrir hið nútímalega þjóðríki að tortíma og glundra lífi á miklu öflugri hátt en nokkurn tíma áður og að ógnarverkamenn muni aldrei geta orðið jafn árangursríkir í sínum eyðileggingum. Það sem Asad finnst merkilegt er að það eru ekki drápin og afmennskunin sem skiptir mestu máli heldur hvernig þau eiga sér stað og hvað liggur að baki.

Í lok inngangsins tekur Asad það fram að erindi hans sé engan vegin að benda á haldbæra lausn á þessu þverstæðukennda vandamáli stofnanavædds ofbeldis. Né heldur dettur honum í hug að hægt sé að viðurkenna eina tegund ofbeldis andstætt annarri. Von hans er að lesandinn verði fyrir nægilegri truflun svo hann/hún geti litið á þetta flókna mál úr fjarlægð í stað þess að gleypa allt sem fjölmiðlar og stjórnmálamenn bera á borð fyrir fólk á frekar einhliða hátt.

„Við“ og slæðan „hinna“

ágúst 15, 2007

Í þessari ágætu grein eftir mannfræðinginn Lila Abu-Lughod – sem er af palestínskum ættum og menntuð á vesturlöndum (m.a. Harvard) – er fjallað um ímyndir „okkar“ um hætti „hinna“. Höfundur hefur gert áratuga langar rannsóknir á heimi kvenna í miðausturlöndum, m.a. bedúínakonum í Egyptalandi. Það var hinn palestínski Bandaríkjamaður Edward Said sem gerði ítarlega grein fyrir þessari skynjun „okkar“ á „hinum“ í bók sinni Orientalism.

Lila Abu-Lughod notar slæðunotkun múslimskra kvenna og hina miklu umræðu – allt að því þráhyggjukennda – sem birtingamynd umræddrar ímyndar og skynjunar „okkar“ á „hinum“. Hún bendir m.a. á að sú hugmynd „okkar“ að allar slæðuberandi múslimskar konur séu þjakaðar af ofríki og kúgun karlaveldis, trúar og hefða, sé að mörgu leyti á misskilningi byggð. Hluti misskilningsins sé að vissu leyti grundvallaður á því viðhorfi „okkar“ að við séum komin lengra á einhverjum (af okkur skilgreindum) þróunarvegi en „hinir“ og að þeir þurfi á aðstoð okkar að halda til að öðlast aukið frelsi og upplýsingu. Með öðrum orðum, þá vitum „við“ betur hvað „hinum“ er fyrir bestu. Gerum við það?

Lila Abu-Lughod bendir á þá þrálátu staðalmynd sem við höfum varðandi blæjunotkun múslimskra kvenna, og sem slík hefur öðlast visst þráhyggjueinkenni í huga (og fjölmiðlum) „okkar“ í hvert sinn sem talið berst að menningarheimi múslima (eins og hann sé eitthvert einsleitt fyrirbæri). Hún bendir á að allt of oft sé litið fram hjá hinum mikla fjölbreytileika í reynsluheimi milljóna múslimskra kvenna ásamt hinum margvíslegu háttum hvað varðar notkun sjálfrar slæðunnar. T.d. er sú tegund sem þekkt er úr heimsins fjölmiðlum frá Afganistan, burka, svæðisbundið einkenni kvenna af Pashdun etnerni á landamærum Afganistan og Pakistan. Þessi tegund slæðu tíðkaðist á þessu svæði fyrir tíma Talibana sem og eftir. Það má minna á að Talibanarnir voru uppfinning USA/CIA í baráttunni fyrir frelsi heimamanna.

Lila Abu-Lughod álítur að leiðir fólks til frelsis/frelsunar séu jafn margar og fjölbreytilegar og fólkið sjálft. Að engin ein hugmynd eða aðferð sé öðrum æðri og henti öllum jafnt. Einnig varar hún við þeirri tilhneigingu „okkar“ til að vorkenna „hinum“ (vegna skorts á frelsi og þróun) og þá einkum og sér í lagi slæðuberandi múslimskum konum. Í stað þess að einblína á slæður ættum við að reyna að stuðla að réttlæti og friði í heiminum og einnig að hafa í huga hvaða áhrif afskipti „okkar“ (vestursins) af „hinum“ (miðaustrinu) hefur haft á pólitískt landslag svæðisins og hvaða þátt þessi afskipti eiga við myndun alls kyns (mismunandi mikilla) islamískra öfgahópa sem nota trúna sem pólitískt vopn í andspyrnu sinni gegn „okkur“ og „okkar“ áhrifum. Einn slíkur hópur eru Talibanarnir, skilgetið afkvæmi afskipta „okkar“ af „hinum“.

Þessi grein Lila Abu-Lughod er fín lesning fyrir þá sem hafa áhuga á að skyggnast aðeins á bak við slæðuna alræmdu.

Einkarekinn stríðsgróði

ágúst 7, 2007

Eins dauði er annars brauð, segir sígilt máltæki. Samkvæmt þessari grein er stríð í sívaxandi mæli orðið einkarekinn bissniss, sem eins og allur annar slíkur, krefst ávöxtunar til handa hluthöfum og bakhjörlum. Sumir hafa litið á árásina á írak sem yfirgripsmikla viðskiptaáætlun, þ.e. að ná völdum yfir olíulindum landsins. Það lítur næstum því svo út í dag að sú áætlun hafi mistekist. En sá hryllingur sem á sér stað í Írak í dag er augljóslega feit fjárþúfa fyrir einkarekin stríðsfyrirtæki. Þessir einkareknu málaliðar eru ekki bara að „störfum“ í miðausturlöndum, heldur út um allan heim, og þeim tengjast einnig í vaxandi mæli einkareknar njósnastofnanir, sem bera ekki ábyrgð gagnvart ríkisvaldinu, heldur hluthöfum. Þessi markaðsvæðing stríðsreksturs er af áður óséðri stærð í sögu nútímans. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að til að tryggja afkomu þessarar starfsgreinar þurfa að vera stríð einhvers staðar í heiminum og ef til þarf, að búa þau til.

Ein af algengustu og viðurkenndustu skilgreiningum á þjóðríkinu er að það hefur einkaleyfi á beitingu þvingunarvalds og ofbeldis, bæði innan marka þess og utan. Eins og sjá má af ofannefndri grein eru sumir orðnir uggandi yfir þessari þróun, því þessi hornsteinn þjóðríkisins, þ.e. einkaleyfi á ofbeldi, gæti átt á hættu að dreifast og færast til einkaaðila, sem bera ekki ábyrgð gagnvart ríkinu/landinu, heldur hluthöfum og bakhjörlum. Fyrir hverja eru þessir tindátar að berjast? Hverjum bera þeir hollustu? Hver hefur stjórn á þeim? Við þessar spurningar má örugglega bæta, en þær eru allar lögmætar.

Hér má sjá heilagt samráð vopnaframleiðenda og einkaherja, sem sjá sér leik á borði að mata krók sinn feitt, ásamt öfgafullum sértrúarhópum, en eins og kemur fram í nefndri grein þá er forsprakki eins helsta málaliðafyrirtækisins (Blackwater), öfgafullur kristinn hægri repúblikani (Eric Prince). Margir af hans líkum trúa á heimsendaspár Opinberunarbókar Jóhannesar, og að þeir séu að leggja hönd á plóginn við að stuðla að Endinum. Og ekki er verra að fara með feitan bankareikning til himnaríkis, gróða eyðileggingarinnar. En það sem er eiginlega kaldranalegast við þetta er að þessir einkareknu vígamenn hafa fullan stuðning valdamestu stjórnmálamanna heims, sem deila bæði tilganginum og meðalinu.

Það er ein hlið á þessu máli sem er vert að athuga aðeins. Þjóðríkið er tiltölulega ný uppfinning og lýðræði einnig, og er hvorugt sjálfgefið. Þjóðríkið var eiginlega búið til sem umgjörð – stærri en tíðkast hafði áður – um stórvaxandi auðsöfnun í kjölfar nýlendustefnunnar og iðnbyltingarinnar og aðgang að meiri fjölda manna til vinnu og til stríðsreksturs: til að framleiða meira og verja ágóðann en einnig til að komast yfir auð annarra. Það þurfti í auknum mæli að manna verksmiðjurnar og herinn. Í dag lítur heimurinn allt öðru vísi út. Framleiðslan (vinnan) er flutt til þriðja heimsins, þar sem nóg er til af ódýru vinnuafli, auðurinn er orðinn alþjóðavæddur og, eins og sést hefur hér, þá er réttur til ofbeldis orðinn einkavæddur og alþjóðavæddur meira en áður þekktist. Á sama hátt og auður og framleiðsla hefur fólk í vaxandi mæli alþjóðavæðst – flust á milli heimshluta og útvíkkað svokallað þjóðerni sitt. Hvað verður þá eftir handa þjóðríkinu?

Ef og þegar valdbeiting og ofbeldi, ásamt upplýsingasöfnun (njósnum) er komið á þetta stig, hvernig mundi það líta út ef t.d. lýðræði eins og við þekkjum það í dag, og sem kostaði svita, tár og blóð, yrði afnumið af valdamestu stofnunum heims? Hvað mundu þeir gera við allar þær upplýsingar sem þeir hafa safnað um „okkur“? Hvernig lög og reglur mundu þeir setja? Þessum spurningum er vert að gefa gaum, t.d. í samhengi við alls kyns gagnabanka sem er alltaf verið að koma upp, leynt og ljóst, og samkeyrslu rafrænna upplýsinga um neysluvenjur og ferðir fólks. Nú þegar eru stjórnvöld í USA og Bretlandi (og víða annars staðar) búin að herða tök sín á frelsi fólks og eru í auknum mæli að draga til baka alls kyns borgaraleg réttindi í nafni öryggis.

Einkaherir og aðrar vafasamar en öflugar stofnanir gætu með þessu áframhaldi sölsað undir sig völdin í heiminum og skapað algerlega nýja heimsmynd. Eru öryggisventlar nútíma þjóðríkis nógu öflugir til að sporna við þessu? Stendur lýðræði nægilega föstum fótum? Eru alþjóðastofnanir á borð við SÞ nógu sjálfstæðar og sterkar til að koma í veg fyrir svona (hugsanlega) þróun? Var viðskiptaáætlunin „árásin á Írak“ ekki framkvæmd í óþökk „alþjóðasamfélagsins“, þ.e. SÞ?

Þessar hugleiðingar um nokkuð sem gæti mögulega gerst, en þyrfti að sjálfsögu ekki að gera það, ættu að undirstrika mikilvægi þess að borgarar heimsins séu vakandi gagnvart valdinu, bæði hinu löglega og sýnilega sem og hinu falda. Saga síðustu aldar ætti að nægja til að gera sér grein fyrir því að það er ekki mikið mál að skipta út stjórnskipulagi og afnema rétt og búa til ný lög.