Archive for the ‘Almennt’ Category

Fitna farsinn – frelsisþjófar

mars 28, 2008

Ég rakst á nokkrar blaðagreinar um „mynd“ hollenska hægri öfgamannsins Geert Wilders, Fitna. Á vef Danmarks Radio , er frétt um komandi lögsókn Kurt Westergaard (Múhameðsteikningar, muniði?) gegn Geert Wilders vegna „þjófnaðar“ hans á teikningum KW af spámanninum (hvað er þetta með þessa hægri öfgamenn, af hverju þurfa þeir alltaf að stela frá öðrum?). Þetta er næstum því fyndið. Danskur „islamforsker“ segir í Politiken að þessi „mynd“ fjalli ekki um tjáningarfrelsi heldur eingöngu til að ögra fólki. Sama sagði hægrikonan Hirsi Ali. OK? Danski pólitíkusinn Naser Khader vill meina að „myndin“ sé í fyrsta lagi léleg og illa gerð og finnst asnalegt að stjórnvöld í Hollandi séu að skipta sér af þessu (hrædd við útflutning á túlipönum??). Hvað með að Wilders sé asnalegur, eða bara asni? Þessi „mynd“ sé ófrumleg endurvinnsla á gömlum klisjum og hann ypptir bara öxlum yfir kjánaskapnum. Demogogus Primus Dana, hægrifanatíkerinn Pia Kjærsgaard, reynir að æsa sig upp og segja okkur að við höfum „rétt“ til að móðga og ögra af því að öfgamenn séu raunveruleiki. Flott rök. En besta greinin er eftir breskan múslim sem ég hef talað um áður, sem er Ali Eteraz. En hann skrifar skemmtilega íróníska grein um þessa svokölluðu „mynd“ og gefur henni falleinkun, í fyrsta lagi fyrir ófrumlegheit og hugmyndafátækt (=“ritstuldur“, hægri öfgamenn aftur!). Það besta við „myndina“ sé soundtrackið eftir Tjækofskí. Ég mæli með þessari ágætu grein (og öðrum pistlum Ali Eteraz) sem konklúderar eiginlega á því að „idiots recognise one another“, og á þar við danspör eins og Wilders og „Íslamista“ sem nærast á hatri hvors annars. Einnig bendir Ali á að „mynd“ Wilders sé léleg eftirlíking (enn einn þjófnaður (ritstuldur) hægri öfgamanna, hvað er þetta eiginlega!?!) á óteljandi áróðursvídeóum öfgafullra Íslamista, en sé lélegri og viðvaningslegri, fyrir utan soundtrackið, sem sé byggt á vögguvísu frá Georgíu. Leiðtogar múslima í Hollandi hafa ásett sér að þegja þetta „listaverk“ í hel og langflestir múslimar hrista bara hausinn yfir þessum Hannesi Hólmsteini þeirra Hollendinga. Er ekki komið að því að menn hætti þessum fíflagangi og hætti að nota „tjáningafrelsi“ sem gólftusku eða klósettpappír? Mér er bara spurn.

Auglýsingar

Endurnýjun lífdaga

febrúar 13, 2008

Þessi síða, eins og fram hjá öllum hefur farið, hefur verið í dvala síðan síðasliðið sumar en það er ekki út af því að tíminn hafi staði í stað og ekkert gerst. Það er ekki svo. Það er út af einhverju öðru. Hverju? Tja, ef ég vissi það. En nú stendur til að hefja þessa síðu til endurnýjunar lífdaga með hækkandi sól á Fróni og mun næsta færsla verða að veruleika innan skamms. Það er ekki ólíklegt að umfjöllunarefni síðunnar munu snerta Íslam og múslima á einhvern hátt þar eð ég er að stúdera þann heim þessa dagana, en ýmislegt annað mun skjóta upp kollinum. Það er spurning hvort maður nenni að eyða púðri á íslensk/reykvísk stjórnmál, eða hvaða nafni því skyldi nú gefa, þvílík lágkúra sem það er þessa dagana. Fótbolti, kannski, mínir menn Arsenal eru nú með fimm stiga forystu í deildinni og munu heimsækja ManU á OT í FA bikarnum á laugardaginn kemur og fá AC Milan í heimsókn á miðvikudaginn í næstu viku í CL. Spennandi tímar framundan á því sviði. Titilinn í ár? Því ekki það. Kemur í ljós í maí. Næsta færsla á leiðinni….

Afvegaleiddar öryggisaðgerðir

ágúst 9, 2007

Ég rakst á þessa grein sem sýnir hversu langt „öryggisverðir okkar“ vilja ganga til að vernda okkur gegn okkur. Eða bara hafa okkur alla daga og nætur undir eftirliti. Hvaða öryggisfyrirtæki er hér um að ræða (sbr. næsta pistil hér á undan)? Eða með öðrum orðum: hvaða paranoid vitleysa er þetta? Hversu langt eiga þessir aðilar að fá að ganga til að gera okkur lífið leitt? Eins og segir í greininni þá verða margir stressaðir og „grunsamlegir“ þegar þeir sjá allt fullt af löggum og öryggisvörðum í kringum sig, mænandi á sig, þótt blásaklausir séu. Setja á okkur lygamæli án þess að við vitum það?!? Getur svona mæligræja séð hvort hinn stressaði sé að fara að rífast við skattinn, hafi verið að rífast við konuna eða er að koma niður af amfetamíni, eða ætli að sprengja heiminn í loft upp? Eða er bara taugaveiklaður að upplagi? Detta mér allar dauðar lýs úr hári! Þetta væri reyndar yfirgengilega fáránlegt ef ekki væri að svona græjum verður komið fyrir út um allan bæ (ef ekki nú þegar) með þeim afleiðingum að hinn yfirstressaði nútímamaður liggur allur undir grun um að hafa vafasamar hugsanir í hausnum og hættuleg áform á prjónunum. Mér finnst að fólk ætti að fara að rísa upp gegn þessari vöktunar og eftirlitsmaníu yfirvalda og einhverra öryggisfyrirtækja út í bæ, sem eru eingöngu að þessu peninganna vegna. Ef ég man rétt þá var það einhver af forsprökkum að stofnun USA og ritunar hinnar ágætu stjórnarskrár þeirra Kanamanna sem sagði að fólk sem fórnar frelsinu vegna öryggis ætti hvorugt skilið.

Lög, menning, trú

ágúst 2, 2007

Einkar athyglisvert mál er komið upp hér í Danaveldi (þar sem ég er í smá sumarfríi) og er um það fjallað m.a. í Politiken 1. ágúst. Um er að ræða íraskan mann, sem vann sem túlkur fyrir herlið Dana í Írak. Eftir að ljóst fór að vera að algert upplausnarástand væri að taka völdin í Basra sem og annars staðar í hinu sundurtætta Írak – og að danski herinn væri á leið heim (er kominn heim á skrifandi stundu og var látið fara sem minnst fyrir því) – sótti maðurinn um flóttamannahæli í Danmörku.

Danir hafa haldið hliðum sínum vel lokuðum fyrir aðkomufólki síðustu árin, en þessi maður taldi sig hafa allar ástæður til að vera hleypt inn. En sá galli var á gjöf Njarðar að maður þessi á tvær eiginkonur, eins og tíðkast hjá mörgum í hans heimshluta. Og er hluti af menningunni, eins og sagt er svo oft. Samkvæmt lögum er fjölkvæni bannað í Danmörku, en túlkurinn íraski hefur fengið stuðning úr átt sem margir hefðu talið ósennilega. Nokkrir þekktir kirkjunnar menn hafa tjáð sig um málið og sett fram þá skoðun sína að maðurinn eigi að fá að búa með báðum konum sínum, sem hann er jú löglega kvæntur og kemur sem slíkur til landsins ásamt konum sínum tveimur. Bent var á að margir mikils metnir „forfeður“ júdeó-kristni (og islam), þ.á.m. Abraham, Jakob og Davíð konungur hafi átt fjöldan allan af konum og sand af börnum. Þekktir danskir trúmenn á borð við biskupinn í Viborg, Karsten Nissen, dómprófastinn í Kaupmannahöfn, Anders Gadegaard og guðfræðinginn Svend Andersen eru einróma um að það væri ómanneskjulegt að krefjast þess að Írakinn skildi við aðra konuna. Auk þess væri hvergi minnst á það í Biblíunni að þetta hjúskaparform væri bannað samkvæmt Guðs lögum. Telja mætti að valið væri ómögulegt og ómanneskjulegt og að slíkur skilnaður mundi svifta konuna sem hann neyddist til að skilja við mikilvægum lagalegum réttindum og stofna lífi hennar og barni/börnum (hann á þrjú börn með konunum) í hættu. Jesper Langballe, sem er oft kallaður svarti klerkurinn (sökum þröngsýni sinnar, fordóma og harðlyndis) er ekki sammála kollegum sínum. Hann segir að samkvæmt lögum sé fjölkvæni bannað í Danmörku. Punktur. Út með aðra konuna (les = þau öll)! Þetta er nokkuð lýsandi fyrir skilning svartklerksins, sem er einnig þingmaður fyrir danska þjóðarflokkinn (Dansk Folkeparti = DF), á kristilegum mannkærleika. En það sem er einnig athyglisvert er að ýmsir feministar hafa tjáð sig sammála klerkinum svarta á þeim forsendum að fjölkvæni sé birtingarmynd mismununar og kúgunar á konum og stríði auk þess á móti jafnréttislögum jafnt sem kvennasáttmála SÞ. Allir sem að málinu koma eru sammála um eitt: að það sé erfitt, en af ólíkum ástæðum.

Þetta mál er mjög athyglisvert því það veltir upp spurningum um réttindi: jafnrétti, mannréttindi, trúarleg og menningarleg réttindi og borgaraleg réttindi – og lög. Þegar lög þjóðríkisins eru komin í málið ásamt Lögunum (trúarbragða – ritningar) verður þessi samsuða öll frekar flókin. Mannfræðingurinn Gerd Baumann bendir á í bók sinni The Multicultural Riddle, Rethinking National, Ethnic, and Religious Identities (1999) að hugmyndir manna um réttindi séu nákvæmlega það: hugmyndir. Hann bendir á nokkur dæmi, í ætt við þetta umrædda mál, þar sem spurningin um réttindi, eða rétt fær sjaldnast annað en mótsagnakennd svör. Hann heldur því fram að það muni alltaf vera mjög erfitt, jafnvel ógjörningur, að framfylgja réttindum allra í sama þjóðfélagi/ríki, hvað þá í öllum heiminum – ríki hafa líka ólíka hagsmuni. Hagsmunir ríkisins (festir í lögin) og hagsmunir ólíkra hópa – menningarlegir, trúarlegir eða etnískir – geti auðveldlega rekist á. Sérstaklega telur hann erfitt að eiga við trúarlega sannfæringu fólks, einkum þá sem færð hefur verið í ritningar, því þar sé um að ræða Lög, sem séu lögunum æðri. Þar sé sannleikurinn, eðli sínu samkvæmt, hafinn yfir nokkurn vafa. Einnig getur fólk haft óhaggandi pólitískar skoðanir (og vísað í skoðanafrelsi) og krafist tiltekinna réttinda þeirra vegna sem geta auðveldlega stangast á við hugmyndir (lög) ríkisins, sem þó á að standa vörð um skoðanafrelsið. Og fjölmörg dæmi hafa verið til um mismunandi útfærslu réttinda eftir etnerni (sbr. t.d. blökkumenn í USA og S-Afríku ekki fyrir svo löngu síðan, Sama í Noregi eða frumbyggja USA, svo eitthvað sé nefnt). En Baumann leggur áherslu á þá staðreynd að þessir þættir, þ.e. menning, trú, etnerni og þjóðerni (tengt borgaralegum réttindum og lögum) eru alltaf að breytast og að einstaklingar eiga það til að skipta um þessa „tilheyrsluþætti“ eftir hentugleikum og aðstæðum, auk þess sem hver og einn búi yfir mörgum sjálfsmyndum sem geta verið mjög sveigjanlegar, allt eftir samhenginu. Ekkert af þessu er óbreytanlegt, samkvæmt Baumann (og flestum fræðimönnum sem fjalla um þessi mál).

Samkvæmt mannréttindasáttmála SÞ eru mannréttindi algild, en er það fullkomlega raunhæft? Um þetta hefur verið mikið deilt og þeir sem hafa sett spurningamerki við algildi mannréttinda hafa verið ásakaðir um óforsvaranlega menningarlega afstæðishyggju sem réttmætir hvers kyns yfirgang og kúgun, allt í nafni menningarinnar. Það má skjóta því inn hér að samið hefur verið uppkast (sem ég held að sé gildandi – þarf að athuga það betur) að mannréttindasáttmála frumbyggja um heim allan. Þar er tekið tillit til aðstæðna og lífsskilyrða sem eru ólík þeim sem gilda í hinum iðnvædda heimi þjóðríkja. Með þessu er það viðurkennt að það er ekki hægt að setja alla í sama bás, þ.e bás hins ráðandi meirihluta. Þessi sáttmáli miðar m.a. að því að vernda landréttindi og samfélagsform frumbyggja, sem eru jafn fjölbreytileg og þau eru mörg og er þeim oft ógnað af hagsmunum þjóðríkja og/eða stórfyrirtækja.

Hægt er að þvinga hugmyndum eins hóps um réttindi yfir á annan án þess að sá kæri sig um það. Umræðan um slæðunotkun múslimskra kvenna er eitt dæmi um þetta. Taka má fram að milljónir hindúakvenna bera einnig slæður og milljónir múslimakvenna bera ekki slæður. Er það ekki réttur hvers einstaklings að ákveða það sjálf? Sú umræða er of löng og margþætt fyrir þennan pistil, en að henni mun verða vikið seinna.

Eins og ég vona að hafi komið í ljós, þá er hugmyndin um réttindi, svo maður tali nú ekki um jöfn réttindi, ekki eins einföld og margir vilja halda. Mismunandi hópar fólks hafa mismunandi hugmyndir um þennan þátt tilverunnar eins og aðra og margir kæra sig ekki um að vera þvingaðir af öðrum til að vera sammála. Svo gæti maður haldið að það væru sjálfsögð mannréttindi að eignast þak yfir höfuðið og eiga í sig og á. Ættum við ekki að byrja þar? Sumstaðar hefur fólk stjórnarskrárbundinn rétt til að eiga skotvopn og að nota þau. Eru það réttindi sem allir eiga að vera sammála um? Svona mætti lengi halda áfram en ég hef hugsað mér að velta þessum málum upp síðar og þá sér í lagi mismunandi viðhorfum um hvað réttindi eru. Réttur er álíka snúið hugtak og frelsi, enda hanga þau á sama prikinu. Meira um þetta seinna.

Byrjun

júlí 29, 2007

Góðan daginn bloggheimar.

Þetta er fyrsta bloggfærslan hér og er tilfinningin eilítið eins og að tala við sjálfan sig. Þessi blogg er hugsaður sem vettvangur þar sem ég leiði hugan að ýmsum málum sem mér finnst athyglisverð. Það er aldrei að vita nema einhver/einhverjir séu til í að taka þátt. Þau mál sem ég mun væntanlega leiða hugann að tengjast almennt ýmsum þjóðfélagsmálum, mannfræði, einnig fótbolta og stjörnuspeki þegar það á við.

Ég hef stundað nám í mannfræði, á Íslandi og í Kaupmannahöfn og mun halda því áfram næstu árin (til doktorsgráðu) við H.Í. Sem hluta af MA námi vann ég vettvangsrannsókn á trúarbrögðum og véfréttum Biriformanna í norðvestur Ghana í vestur Afríku. MA ritgerðina og fleira tengt Birifor fólkinu má finna á þessu bloggi. Doktorsverkefni mitt mun fjalla um tvö trúfélög innflytjenda (eða nýbúa), múslima og búddista, á Íslandi. Þess má vænta að ég muni ræða um málefni því tengdu á þessum blogg, einkum þegar rannsóknin verður komin áf stað fyrir alvöru. Stjórmál og þjóðfélagsmál eiga áhuga minn á sama hátt og trúarbrögð: sem öfl í samfélaginu sem ekki er hægt að sniðganga, ekki frekar en hagfræði (sem ég hef reyndar ekki mikið vit á).

Einnig er líklegt að það muni slæðast hugrenningar um fótbolta, einkum þar sem enska félagið Arsenal FC kemur við sögu. Ég er forfallinn stuðningsmaður Skyttanna sem eru að ganga í gegnum mikla endurnýjun þessa dagana, eru með nýtt og ungt lið og munu vonandi halda áfram að heilla með hinum svokallaða Wengerball og með því gera atlögu að enska titlinum á þessari leiktíð. Þeir sem hafa ekki áhuga á fótbolta geta bara sleppt að smell á þann reit.

Hér líkur þessum stutta inngangi að mínu fyrsta fikti í bloggheimum. Sökum nýgræðingsháttar míns má örugglega búast við einhverjum tæknilegum hikstum, alla vega til að byrja með.