Archive for the ‘Mannfræði’ Category

Konur og „menning“ í Kína, Íran og Ísrael

mars 19, 2008

Ég var að rekast á nokkrar greinar um kvenn-imama í Kína (takk Erla), partígellur í Íran og blæjuberandi gyðingakonur í Ísrael. Já, svei mér þá! Í norðvesturhéruðum Kína hefur Íslam verið stundað síðan árið 650, valdhöfum ríkisins í miðjunni til nokkurs pirrings allar götur síðan – sem er varla frásögu færandi. En á þessu svæði er hefð fyrir að konur stjórni moskum og standi fyrir bænahaldi og allri annarri starfsemi, nema að kalla til bæna og leiða bænir karla. Það gerist með karlrödd í gegnum hátalara á veggnum frá nærliggjandi karlamosku. Umrædd grein er m.a. viðtal við hina 68 ára gömlu Ding Gui Zhi,sem hefur starfað sem imam um langt skeið. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að Íslam í Kína hafi kínversk áhrif og hafi rætur í kínverskri menningu. Staða kínverskra múslima hefur oft legið undir þrýstingi stjórnvalda, og nefnir konan sérsaklega tímabil „menningarbyltingar“ Mao Zedong sem „hörðu árin“. Það þarf varla að taka það fram að hugmyndafræði Maos (kommúnismi) byggðist á vestrænni veraldarhyggju á sama hátt og nazismi og fasismi. En það er önnur Ella. Ungar konur á umræddu svæði sækja sumar í að menntast sem imamar, einkum til að lyfta sér úr fátækt og kúgun en einnig af trúarlegum áhuga og lærdómsfýsn. Þetta er ein birtingarmynd Íslam (kínverskir múslimar á þessu svæði eru um 10 milljónir). Svo rakst ég á grein um partístand ungra kvenna í Tehran. Eins og margir vita, þá er stundaður nokkuð skír aðskilnaður karla og kvenna í hinu opinbera rými í flestum múslimasamfélögum. Partígellurnar í Tehran viðhalda (með hjálp siðgæðislöggunnar) þessari skiptingu með því að hittast og partía í lokuðum, földum lókölum, þar sem slæðan fellur, diskóið dunar og landa er jafnvel lyft í glasi. Þær segja að væntanleg menningarbylting hinnar mjög svo fjölmennu ungu kynslóðar byrji heima og/eða á svona stöðum. Þessi breyting er einnig að vinda upp á sig á kaffihúsum og á götum úti. Stiginn er skrítinn feludans þar sem báðir aðilar sjá hvor annan, horfast í augu og athuga hvor blikkar fyrst. Þessi kynslóð (sem er yfirgnæfandi hlutfall í Íran) hefur ekki mikið álit hvorki á klerkum né öðrum valdhöfum landsins, enda eru þeir logandi hræddir við þessa kynslóð. Að lokum sá ég merkilega grein um blæjubylgju meðal gyðingakvenna í Ísrael. Þar segir að hin raunverulega ástæða blæjunotkunar kvenna í miðausturlöndum sé að öllum líkindum löngu grafin í sandinn (varð hún kannski til vegna hans?). En umræddar gyðingakonur sem hafa tekið upp á því að ganga með blæju hafa verið stimplaðar sem geðsjúkar af rabbínum (sem eru allir karlar). Þessar konur vísa í heilaga texta Biblíunnar þar sem talað er um blæjunotkun kvenna við vissar aðstæður (t.d. Genesis 24:65). Í kjölfar þessarar „geðsjúku“ hegðunar hóps gyðingakvenna hafa menn farið að leita uppi heimildir í Gamla Testamentinu um blæjunotkun kvenna (oftast hefðarkvenna, eins og upprunalega var hjá múslimskum konum á sínum tíma). Þetta dæmi sýnir mögulega að arabar og gyðingar eigi sér að hluta til sameiginlegar rætur í sandinum, sem ætti ekki að vera óeðlilegt á meðal nágrannafólks. Vert til umhugsunar varðandi tengsl trúar, menningar og pólitíkur og hvernig hægt er að hrúga saman alls kyns fyrirbærum úr mörgum áttum og eðlisgera sem einhverja eina menningu, og tala t.d. um sem „íslamska menningu“, eða „kristna menningu“, eða „gyðingamenningu“ en það er vafasamt hvort slíkt sé yfirhöfuð til sem eitthvað eitt og samstætt. Samt er auðvelt og algengt að hnoða byssukúlur úr alls kyns samkrulli og demba því yfir saklaust fólk, eins og allt of mörg dæmi fyrr sem nú sanna, sem bendir á nauðsyn þess að gera sér grein fyrir því að menning er ekki föst, heilstæð stærð, heldur síbreytilegt ferli viðhorfa og athafna sem skarast á ótal vegu í mannheimum. Einhver sagði einu sinni að menning væri eins og fljótið hans Heraklítusar, en í það var bara hægt að stinga tánni einu sinni og aldrei aftur því fljótið er aldrei það sama, það er síbreytilegt þótt það virðist ekki breytast á yfirborðinu. Hættulegasta vopn óþokka sögunnar er eðlisgerfing menningar: „gyðingar eru svona, svona er þeirra menning, en okkar er æðri“. Allir vita hvernig það fór. Í dag er viðkvæðið: „þessi múslimska menning ógnar okkar menningu, sem er betri og æðri“. Þetta er hættulegt og heimskulegt, en getur komið mönnum á þing og til valda en einnig skapað hatur með skelfilegum eyðileggingum. Það má benda á að þetta ferli og þessi eðlisgerfing menningar (þar sem trúarbrögðum er beitt sem menningu) lifir enn góðu lífi á Balkanskaganum og allir ættu að muna hver birtingarmynd þessarar hugmyndafræði var, fyrir ekki svo löngu síðan. Og eins og Ghandi benti á þegar einhver nýlenduherrann ræddi um „vestræna menningu“ við hann, svaraði hann með því að segja að það væri ábyggilega góð hugmynd.

Auglýsingar

Slæðan aftur

febrúar 15, 2008

Einfaldur klútur sem konur vefja um höfuð sér, einkum múslimskar konur, er orðin miðpunktur umræðu á vesturlöndum. Tyrkir voru nýlega að breyta lögum varðandi slæðuna á þá leið að konum er leyfilegt að bera hana innan svæða háskóla, en það hafði verið bannað áratugum saman til að undirstrika hina veraldlegu (secular) stöðu tyrkneska ríkisins. Ég hef áður fjallað um þetta fyrirbæri á þessi bloggi en hér er aðeins öðru vísi nálgun.

Þetta einfalda höfuðfat, eða slæða, er farið að hafa ótrúlega mikla og táknhlaðna merkingu í Evrópu og Tyrklandi, sem skilgreina sig sem veraldleg (secular) menningarsvæði. Eins og áður hefur verið rætt, þá skiptir sköpum hvernig hlutir (eða fólk) eru skilgreindir. Er slæðan trúarlegt tákn múslimskra kvenna? Milljónir múslimskra kvenna ganga EKKI með slæðu. Er slæðan upprunalega skjól gegn sólarljósinu? Sandfoki? Er slæðan upprunalega menningarleg og með staðbundin einkenni? Ganga ekki margar eldri/trúaðar (kristnar) konur á Grikklandi, Spáni, Rússlandi og Ítalíu líka með slæður? Af hverju talar einginn um það? Slæðan virðist vera orðin fyrst og fremst tákn sjálfsákvörunaréttar ungra múslimskra kvenna í Evrópu, tákn menningarlegrar staðsetningar og sjálfsmyndarsköpunar. Á þann hátt má sjá slæðuna sem blöndu af pólitískri/menningarlegri staðhæfingu og tísku. Mini-pilsin á 7. áratugnum voru bæði tíska og tákn um aukið kynferðislegt frelsi kvenna samfara tilurð p-pillunnar. Að sumu leyti er slæðan orðin kvenfrelsistákn eins og mini-pilsin, þó birtingarmyndin sé ólík og pólitískur undirtónn sterkari, en að sama skapi hættulegur. Er þetta ekki líka spurning um vald á opinberu rými? Fer það kannski í taugarnar á „heimamönnum“ að „gestirnir/hinir“ skuli voga sér að setja svona áberandi og einkennandi svip á götumyndina? Þetta er kannski ekki svo einfalt. Þjóðríkið (t.d. Frakkland eða Tyrkland) vill þvinga ákveðna þjóðfélagshópa með lögum til að haga sér á ákveðinn hátt á forsendum ríkisins, þar sem hugmyndin er sú að allir eigi að lúta sömu kvöðum að ofan. Er ekki litið á slæðunotkun ungra (og oft vel menntaðra og upplýstra evrópskra kvenna) sem óþekkt eða allt að því uppreisn gegn ríkjandi gildum? Andspyrna gegn status quo? Það má líta á þetta frá ýmsum hornum, en að halda því fram að slæðan í þessu samhengi sé engöngu tákn kúgunar karlaveldisins og feðraveldistrúar er gróf einföldun og stenst ekki skoðun. Sumar konur ganga með slæðu vegna trúhneigðar en alls ekki allar. Slæðan er sem sagt orðið mjög öflugt og flókið tákn en það eru þeir sem vilja banna hana sem hafa gefið þessum klút þetta tákngildi. Þegar þrýstingur ríkisvaldsins verður of mikill gegn ákveðum hópum eykst andspyrnan að sama skapi: Því meira mál sem stjórnvöld gera úr slæðunni þeim mun útbreyddari verður hún, hún verður tákn menningarlegs sjálfstæðis og þjóðfélagslegs andófs. Tákn íhaldseminnar breytist í tákn félagslegrar óhlíðni.

Sjálfsmorðssprengjur og aðrar sprengjur

ágúst 21, 2007

Hér er fjallað um málefni sem hefur verið mikið í umræðunni og valdið óhug flestra. Mannfræðingurinn Talal Asad tók sig til og skrifaði bók um þetta fyrirbæri og ber hann þar saman ýmsar tegundir ofbeldis – löglegs og ólöglegs – sjálfsmorðssprengjur (og önnur ógnarverk) og hernaðaraðgerðir ríkisvalds. Ef smellt er á „skrifaði bók“ er m.a. hægt að lesa inngang Asads að bókinni. Hann spyr sjálfan sig hvort til sé eitthvað sem kalla megi ógnarverk knúin áfram af trúarbrögðum. Ef svo er, á hvaða hátt eru þau öðru vísi en önnur tegund grimmdar? Hvað er það sem gerir þessa hvatningu – annað en þann einfalda ásetning að drepa – trúarlega? Hvernig stendur þessi tegund grimmdar í samanburði við aðrar gerðir opinbers ofbeldis? Hvernig er ímynd sjálfsmorðssprengjumannsins, sem kálar sjálfum sér og öðrum, litin af kristnum mönnum og post-kristnum? Spyr Talal Asad. Hann snýr sér að skrifum mannfræðinga um að ógn (terror) sé upplausn félagslegrar og persónulegrar sjálfsvitundar og forms almennt. Samkvæmt Asad er krossfesting Krists frægasta sjálfsmorð í sögunni og hann telur að hryllingur sá er tengist henni hafi verið ummyndaður í það að frelsa mannkyn – fyrir tilstilli samtengingar grimmdar og samkenndar – og að þessi frásögn/goðsögn hafi alltaf heillað menn og búi yfir miklum krafti.

Asad segir að það sem honum finnist athyglisvert sé, að hversu mikið sem við reynum að greina á milli siðferðislega góðs og siðferðislega ills máta að drepa, feli það í sér miklar mótsagnir sem geri okkur erfitt fyrir. Megin hugmynd Asads er að tilurð ógnar og framkvæmd ógnarverka séu birtingarmyndir hernaðaraðgerða í heimi sem einkennist af ójöfnuði, hugmynda okkar um hvað sé grimmd og hvað sé nauðsyn, og þeirra tilfinninga um það hvort ákveðin tegund dráps sé réttmætanleg eða fordæmanleg.

Asad ber þannig saman tegundir ofbeldis, eina sem er framkvæmd af ríkisvaldinu (með hervaldi) og annarrar sem er framin af hópum utan valdasviðs ríkisins, og ofast gegn því. Ofbeldi ríkisvaldsins einkennist m.a. af lögmætingu og réttmætingu sem sé samtenging grimmdar og ástríðu sem þróaðar þjóðfélagslegar stofnanir hvetja til og gera kleift. Hann bendir á að ofbeldi af þessu tagi hafi á bak við sig skipulag og afl sem t.d. ógnarverkasveitir búi ekki yfir.

Hugmyndafræði þjóðríkisins getur þannig löggilt ofbeldi sem það beitir öðrum í stríðsrekstri sínum. Ef ógnarverkamaður sprengir sjálfan sig upp og tekur önnur mannslíf með sér er það glæpur, og getur ekki verið annað en illska. Ef sprengjur úr F16 þotu drepa hóp saklausra íbúa bæjar eða borgar, er það kallað hliðarverkanir (colateral damage). Dráp ríkisvaldsins er réttmætt, er nauðsynlegt, dráp ógnarverkamannsins er glæpur og illska. En hvoru tveggja býr yfir sínum innri rökum og nauðsyn og yfir eigin réttmætingu.

Asad varar við því að lesendur bókarinnar misskilji erindi hans. Hann leggur áherslu á að hann er ekki að halda því fram að verk ógnarverkamanna geti nokkurn tíma verið siðferðislega réttmætanleg. Honum finnst það vera mjög áhrifamikið hversu auðvelt það er fyrir hið nútímalega þjóðríki að tortíma og glundra lífi á miklu öflugri hátt en nokkurn tíma áður og að ógnarverkamenn muni aldrei geta orðið jafn árangursríkir í sínum eyðileggingum. Það sem Asad finnst merkilegt er að það eru ekki drápin og afmennskunin sem skiptir mestu máli heldur hvernig þau eiga sér stað og hvað liggur að baki.

Í lok inngangsins tekur Asad það fram að erindi hans sé engan vegin að benda á haldbæra lausn á þessu þverstæðukennda vandamáli stofnanavædds ofbeldis. Né heldur dettur honum í hug að hægt sé að viðurkenna eina tegund ofbeldis andstætt annarri. Von hans er að lesandinn verði fyrir nægilegri truflun svo hann/hún geti litið á þetta flókna mál úr fjarlægð í stað þess að gleypa allt sem fjölmiðlar og stjórnmálamenn bera á borð fyrir fólk á frekar einhliða hátt.

„Við“ og slæðan „hinna“

ágúst 15, 2007

Í þessari ágætu grein eftir mannfræðinginn Lila Abu-Lughod – sem er af palestínskum ættum og menntuð á vesturlöndum (m.a. Harvard) – er fjallað um ímyndir „okkar“ um hætti „hinna“. Höfundur hefur gert áratuga langar rannsóknir á heimi kvenna í miðausturlöndum, m.a. bedúínakonum í Egyptalandi. Það var hinn palestínski Bandaríkjamaður Edward Said sem gerði ítarlega grein fyrir þessari skynjun „okkar“ á „hinum“ í bók sinni Orientalism.

Lila Abu-Lughod notar slæðunotkun múslimskra kvenna og hina miklu umræðu – allt að því þráhyggjukennda – sem birtingamynd umræddrar ímyndar og skynjunar „okkar“ á „hinum“. Hún bendir m.a. á að sú hugmynd „okkar“ að allar slæðuberandi múslimskar konur séu þjakaðar af ofríki og kúgun karlaveldis, trúar og hefða, sé að mörgu leyti á misskilningi byggð. Hluti misskilningsins sé að vissu leyti grundvallaður á því viðhorfi „okkar“ að við séum komin lengra á einhverjum (af okkur skilgreindum) þróunarvegi en „hinir“ og að þeir þurfi á aðstoð okkar að halda til að öðlast aukið frelsi og upplýsingu. Með öðrum orðum, þá vitum „við“ betur hvað „hinum“ er fyrir bestu. Gerum við það?

Lila Abu-Lughod bendir á þá þrálátu staðalmynd sem við höfum varðandi blæjunotkun múslimskra kvenna, og sem slík hefur öðlast visst þráhyggjueinkenni í huga (og fjölmiðlum) „okkar“ í hvert sinn sem talið berst að menningarheimi múslima (eins og hann sé eitthvert einsleitt fyrirbæri). Hún bendir á að allt of oft sé litið fram hjá hinum mikla fjölbreytileika í reynsluheimi milljóna múslimskra kvenna ásamt hinum margvíslegu háttum hvað varðar notkun sjálfrar slæðunnar. T.d. er sú tegund sem þekkt er úr heimsins fjölmiðlum frá Afganistan, burka, svæðisbundið einkenni kvenna af Pashdun etnerni á landamærum Afganistan og Pakistan. Þessi tegund slæðu tíðkaðist á þessu svæði fyrir tíma Talibana sem og eftir. Það má minna á að Talibanarnir voru uppfinning USA/CIA í baráttunni fyrir frelsi heimamanna.

Lila Abu-Lughod álítur að leiðir fólks til frelsis/frelsunar séu jafn margar og fjölbreytilegar og fólkið sjálft. Að engin ein hugmynd eða aðferð sé öðrum æðri og henti öllum jafnt. Einnig varar hún við þeirri tilhneigingu „okkar“ til að vorkenna „hinum“ (vegna skorts á frelsi og þróun) og þá einkum og sér í lagi slæðuberandi múslimskum konum. Í stað þess að einblína á slæður ættum við að reyna að stuðla að réttlæti og friði í heiminum og einnig að hafa í huga hvaða áhrif afskipti „okkar“ (vestursins) af „hinum“ (miðaustrinu) hefur haft á pólitískt landslag svæðisins og hvaða þátt þessi afskipti eiga við myndun alls kyns (mismunandi mikilla) islamískra öfgahópa sem nota trúna sem pólitískt vopn í andspyrnu sinni gegn „okkur“ og „okkar“ áhrifum. Einn slíkur hópur eru Talibanarnir, skilgetið afkvæmi afskipta „okkar“ af „hinum“.

Þessi grein Lila Abu-Lughod er fín lesning fyrir þá sem hafa áhuga á að skyggnast aðeins á bak við slæðuna alræmdu.

Lög, menning, trú

ágúst 2, 2007

Einkar athyglisvert mál er komið upp hér í Danaveldi (þar sem ég er í smá sumarfríi) og er um það fjallað m.a. í Politiken 1. ágúst. Um er að ræða íraskan mann, sem vann sem túlkur fyrir herlið Dana í Írak. Eftir að ljóst fór að vera að algert upplausnarástand væri að taka völdin í Basra sem og annars staðar í hinu sundurtætta Írak – og að danski herinn væri á leið heim (er kominn heim á skrifandi stundu og var látið fara sem minnst fyrir því) – sótti maðurinn um flóttamannahæli í Danmörku.

Danir hafa haldið hliðum sínum vel lokuðum fyrir aðkomufólki síðustu árin, en þessi maður taldi sig hafa allar ástæður til að vera hleypt inn. En sá galli var á gjöf Njarðar að maður þessi á tvær eiginkonur, eins og tíðkast hjá mörgum í hans heimshluta. Og er hluti af menningunni, eins og sagt er svo oft. Samkvæmt lögum er fjölkvæni bannað í Danmörku, en túlkurinn íraski hefur fengið stuðning úr átt sem margir hefðu talið ósennilega. Nokkrir þekktir kirkjunnar menn hafa tjáð sig um málið og sett fram þá skoðun sína að maðurinn eigi að fá að búa með báðum konum sínum, sem hann er jú löglega kvæntur og kemur sem slíkur til landsins ásamt konum sínum tveimur. Bent var á að margir mikils metnir „forfeður“ júdeó-kristni (og islam), þ.á.m. Abraham, Jakob og Davíð konungur hafi átt fjöldan allan af konum og sand af börnum. Þekktir danskir trúmenn á borð við biskupinn í Viborg, Karsten Nissen, dómprófastinn í Kaupmannahöfn, Anders Gadegaard og guðfræðinginn Svend Andersen eru einróma um að það væri ómanneskjulegt að krefjast þess að Írakinn skildi við aðra konuna. Auk þess væri hvergi minnst á það í Biblíunni að þetta hjúskaparform væri bannað samkvæmt Guðs lögum. Telja mætti að valið væri ómögulegt og ómanneskjulegt og að slíkur skilnaður mundi svifta konuna sem hann neyddist til að skilja við mikilvægum lagalegum réttindum og stofna lífi hennar og barni/börnum (hann á þrjú börn með konunum) í hættu. Jesper Langballe, sem er oft kallaður svarti klerkurinn (sökum þröngsýni sinnar, fordóma og harðlyndis) er ekki sammála kollegum sínum. Hann segir að samkvæmt lögum sé fjölkvæni bannað í Danmörku. Punktur. Út með aðra konuna (les = þau öll)! Þetta er nokkuð lýsandi fyrir skilning svartklerksins, sem er einnig þingmaður fyrir danska þjóðarflokkinn (Dansk Folkeparti = DF), á kristilegum mannkærleika. En það sem er einnig athyglisvert er að ýmsir feministar hafa tjáð sig sammála klerkinum svarta á þeim forsendum að fjölkvæni sé birtingarmynd mismununar og kúgunar á konum og stríði auk þess á móti jafnréttislögum jafnt sem kvennasáttmála SÞ. Allir sem að málinu koma eru sammála um eitt: að það sé erfitt, en af ólíkum ástæðum.

Þetta mál er mjög athyglisvert því það veltir upp spurningum um réttindi: jafnrétti, mannréttindi, trúarleg og menningarleg réttindi og borgaraleg réttindi – og lög. Þegar lög þjóðríkisins eru komin í málið ásamt Lögunum (trúarbragða – ritningar) verður þessi samsuða öll frekar flókin. Mannfræðingurinn Gerd Baumann bendir á í bók sinni The Multicultural Riddle, Rethinking National, Ethnic, and Religious Identities (1999) að hugmyndir manna um réttindi séu nákvæmlega það: hugmyndir. Hann bendir á nokkur dæmi, í ætt við þetta umrædda mál, þar sem spurningin um réttindi, eða rétt fær sjaldnast annað en mótsagnakennd svör. Hann heldur því fram að það muni alltaf vera mjög erfitt, jafnvel ógjörningur, að framfylgja réttindum allra í sama þjóðfélagi/ríki, hvað þá í öllum heiminum – ríki hafa líka ólíka hagsmuni. Hagsmunir ríkisins (festir í lögin) og hagsmunir ólíkra hópa – menningarlegir, trúarlegir eða etnískir – geti auðveldlega rekist á. Sérstaklega telur hann erfitt að eiga við trúarlega sannfæringu fólks, einkum þá sem færð hefur verið í ritningar, því þar sé um að ræða Lög, sem séu lögunum æðri. Þar sé sannleikurinn, eðli sínu samkvæmt, hafinn yfir nokkurn vafa. Einnig getur fólk haft óhaggandi pólitískar skoðanir (og vísað í skoðanafrelsi) og krafist tiltekinna réttinda þeirra vegna sem geta auðveldlega stangast á við hugmyndir (lög) ríkisins, sem þó á að standa vörð um skoðanafrelsið. Og fjölmörg dæmi hafa verið til um mismunandi útfærslu réttinda eftir etnerni (sbr. t.d. blökkumenn í USA og S-Afríku ekki fyrir svo löngu síðan, Sama í Noregi eða frumbyggja USA, svo eitthvað sé nefnt). En Baumann leggur áherslu á þá staðreynd að þessir þættir, þ.e. menning, trú, etnerni og þjóðerni (tengt borgaralegum réttindum og lögum) eru alltaf að breytast og að einstaklingar eiga það til að skipta um þessa „tilheyrsluþætti“ eftir hentugleikum og aðstæðum, auk þess sem hver og einn búi yfir mörgum sjálfsmyndum sem geta verið mjög sveigjanlegar, allt eftir samhenginu. Ekkert af þessu er óbreytanlegt, samkvæmt Baumann (og flestum fræðimönnum sem fjalla um þessi mál).

Samkvæmt mannréttindasáttmála SÞ eru mannréttindi algild, en er það fullkomlega raunhæft? Um þetta hefur verið mikið deilt og þeir sem hafa sett spurningamerki við algildi mannréttinda hafa verið ásakaðir um óforsvaranlega menningarlega afstæðishyggju sem réttmætir hvers kyns yfirgang og kúgun, allt í nafni menningarinnar. Það má skjóta því inn hér að samið hefur verið uppkast (sem ég held að sé gildandi – þarf að athuga það betur) að mannréttindasáttmála frumbyggja um heim allan. Þar er tekið tillit til aðstæðna og lífsskilyrða sem eru ólík þeim sem gilda í hinum iðnvædda heimi þjóðríkja. Með þessu er það viðurkennt að það er ekki hægt að setja alla í sama bás, þ.e bás hins ráðandi meirihluta. Þessi sáttmáli miðar m.a. að því að vernda landréttindi og samfélagsform frumbyggja, sem eru jafn fjölbreytileg og þau eru mörg og er þeim oft ógnað af hagsmunum þjóðríkja og/eða stórfyrirtækja.

Hægt er að þvinga hugmyndum eins hóps um réttindi yfir á annan án þess að sá kæri sig um það. Umræðan um slæðunotkun múslimskra kvenna er eitt dæmi um þetta. Taka má fram að milljónir hindúakvenna bera einnig slæður og milljónir múslimakvenna bera ekki slæður. Er það ekki réttur hvers einstaklings að ákveða það sjálf? Sú umræða er of löng og margþætt fyrir þennan pistil, en að henni mun verða vikið seinna.

Eins og ég vona að hafi komið í ljós, þá er hugmyndin um réttindi, svo maður tali nú ekki um jöfn réttindi, ekki eins einföld og margir vilja halda. Mismunandi hópar fólks hafa mismunandi hugmyndir um þennan þátt tilverunnar eins og aðra og margir kæra sig ekki um að vera þvingaðir af öðrum til að vera sammála. Svo gæti maður haldið að það væru sjálfsögð mannréttindi að eignast þak yfir höfuðið og eiga í sig og á. Ættum við ekki að byrja þar? Sumstaðar hefur fólk stjórnarskrárbundinn rétt til að eiga skotvopn og að nota þau. Eru það réttindi sem allir eiga að vera sammála um? Svona mætti lengi halda áfram en ég hef hugsað mér að velta þessum málum upp síðar og þá sér í lagi mismunandi viðhorfum um hvað réttindi eru. Réttur er álíka snúið hugtak og frelsi, enda hanga þau á sama prikinu. Meira um þetta seinna.

Becoming by acting

júlí 26, 2007

Short essay – 1998.

Download file

Enginn veit hvað átt hefur…

júlí 26, 2007

BA ritgerð 1998.

Lesa (PDF)

Thesis – The Emergence of Meaning

júlí 26, 2007

The thesis is a study of the divination practices of the Birifor of northwest Ghana.

In this study I focus on how meaning emerges from the unknown with the help of divination. The question is asked if humans have power to influence the balance between the two poles of the given and the possible and thus gain some control over fate. This implies the etiological questions of the ‘why’ and ‘how’ of the predicament of life and as such has a moral dimension.

A central factor in the study is the interplay, or ‘mirroring’ of the mundane and occult spheres of experience. In dealing with this I have looked at what R. Devisch has termed ‘structural causality’, i.e. the projection, or extrapolation of mundane afflictions upon a ‘screen’ of a cosmological system (shrines and spirits). This system acts as an ordering frame of reference in aiding people in understanding their situation and act on it in a meaningful way. Underlying this concept seems to me to be the importance of awareness of self and others and of the interconnectedness and unity of all aspects of life – patent and latent – making it easier to cope with what the fates throw in ones direction.

Articles on the Birifor people of North-Western Ghana

júlí 26, 2007

The following sections on the Birifor people of North-Western Ghana are based on fieldwork among the Birifor as well as on external sources. My fieldwork, which was conducted from September to December 1999, was part of a thesis on the divination practices of the Birifor. It was conducted in Western Gonja, primarily in Birifor territory in the vicinity of the big hinterland village of Kalba.

Articles in PDF format.