Archive for the ‘Stjórnmál’ Category

Fitna farsinn – frelsisþjófar

mars 28, 2008

Ég rakst á nokkrar blaðagreinar um „mynd“ hollenska hægri öfgamannsins Geert Wilders, Fitna. Á vef Danmarks Radio , er frétt um komandi lögsókn Kurt Westergaard (Múhameðsteikningar, muniði?) gegn Geert Wilders vegna „þjófnaðar“ hans á teikningum KW af spámanninum (hvað er þetta með þessa hægri öfgamenn, af hverju þurfa þeir alltaf að stela frá öðrum?). Þetta er næstum því fyndið. Danskur „islamforsker“ segir í Politiken að þessi „mynd“ fjalli ekki um tjáningarfrelsi heldur eingöngu til að ögra fólki. Sama sagði hægrikonan Hirsi Ali. OK? Danski pólitíkusinn Naser Khader vill meina að „myndin“ sé í fyrsta lagi léleg og illa gerð og finnst asnalegt að stjórnvöld í Hollandi séu að skipta sér af þessu (hrædd við útflutning á túlipönum??). Hvað með að Wilders sé asnalegur, eða bara asni? Þessi „mynd“ sé ófrumleg endurvinnsla á gömlum klisjum og hann ypptir bara öxlum yfir kjánaskapnum. Demogogus Primus Dana, hægrifanatíkerinn Pia Kjærsgaard, reynir að æsa sig upp og segja okkur að við höfum „rétt“ til að móðga og ögra af því að öfgamenn séu raunveruleiki. Flott rök. En besta greinin er eftir breskan múslim sem ég hef talað um áður, sem er Ali Eteraz. En hann skrifar skemmtilega íróníska grein um þessa svokölluðu „mynd“ og gefur henni falleinkun, í fyrsta lagi fyrir ófrumlegheit og hugmyndafátækt (=“ritstuldur“, hægri öfgamenn aftur!). Það besta við „myndina“ sé soundtrackið eftir Tjækofskí. Ég mæli með þessari ágætu grein (og öðrum pistlum Ali Eteraz) sem konklúderar eiginlega á því að „idiots recognise one another“, og á þar við danspör eins og Wilders og „Íslamista“ sem nærast á hatri hvors annars. Einnig bendir Ali á að „mynd“ Wilders sé léleg eftirlíking (enn einn þjófnaður (ritstuldur) hægri öfgamanna, hvað er þetta eiginlega!?!) á óteljandi áróðursvídeóum öfgafullra Íslamista, en sé lélegri og viðvaningslegri, fyrir utan soundtrackið, sem sé byggt á vögguvísu frá Georgíu. Leiðtogar múslima í Hollandi hafa ásett sér að þegja þetta „listaverk“ í hel og langflestir múslimar hrista bara hausinn yfir þessum Hannesi Hólmsteini þeirra Hollendinga. Er ekki komið að því að menn hætti þessum fíflagangi og hætti að nota „tjáningafrelsi“ sem gólftusku eða klósettpappír? Mér er bara spurn.

Auglýsingar

Íslam og veraldarhyggja

febrúar 17, 2008

Hér langar mig að viðra hugmyndir franska fræðimannsins og Íslamsérfræðingsins Olivier Roy, en hann hefur einkum rannsakað Íslam í Evrópu og tengsl Íslam við evrópska þjóðríkið og veraldarvæðingu. Hann telur það ekki gefið að öll samfélög þurfi að ganga í gegnum sama ferlið og vesturlönd til að tileinka sér lýðræði. Hvað varðar Íslam er ein forsendan sú að gamlar hefðir eru að missa tökin í mörgum samfélögum, ekki síst meðal evrópskra múslima. Hin umdeilda kenning um árekstra siðmenninga, þar sem forsendan var að menning væri grundvölluð á trúarbrögðum og trúarbrögð hefðu þar af leiðandi áhrif á hina pólitísku menningu, er að hruni komin (ef hún þá stóð nokkurn tíman á fótunum). Roy bendir á að ákveðin aftenging eigi sér stað á milli tveggja veruleika: menningarlegra hefða og endurmyndun trúarlegra gilda og hefða óháð sérstökum tilteknum menningum. Þessi þróun er, segir Roy, eitt af afkvæmum hnattvæðingar sem hefur farið sigurför um heiminn. Roy telur vandamálið með Íslam, hvað varðar þessa aftengingu, vera að hún styrki fúndamentalisma ekki síður en frjálslynd viðhorf til trúmála, hvað þá veraldarhyggju. Þetta sést t.d. á því að lýðræðislegar kosningar í löndum múslima hafa oft komið íslamískum flokkum til valda (sbr. Alsír, þó barið á bak aftur; Hamas í Palestínu). Vegna andúðar og hræðslu við áhrif Íslamista hafa vesturveldi stutt veraldlegar harðstjórnir í miðausturlöndum í þeirri von að koma á veraldlegu samfélagi (hvort sem það er yfirskin eða ekki). Afleiðingin er sú að í hugum almennings í þessum löndum tengist veraldleg stjórn einræði og kúgun, studd af vestrænum vopnum og peningum (einhvers konar ný-nýlendustefna), en lýðræðislegar kosningar tengjast Íslamistum. Samkvæmt Roy mun lýðræði í miðausturlöndum ekki virka án einhvers konar ríkisforms (sbr. Hamas í Palestínu, þó að við mjög erfiðar aðstæður sé). En hvað með Íslam?, spyr Roy. Það að vilja byggja lög/samfélag á sharía virðist þjóna þeim tilgangi að friðþægja Íslamista og byggja þannig upp eigin ríkisvitund gegn hinni hröðu „vesturvæðingu“. Við þetta verður til mjög íhaldsöm útgáfa af Íslam, byggð á ströngum lögum og einstrengingslegum siðferðislegum gildum. Annað sem Roy bendir á er hin vaxandi einstaklingsvæðing trúariðkunar og endurskoðun trúarbragða án íhlutunar hinna hefðbundnu menninga, reynsluheim minnihlutahópa (á vesturlöndum – „annarrarkynslóðarinflytjendur“) í vestrinu og virkjun lýðræðis til að losna við (veraldlega) einræðisherra. Þessa þætti telur Roy að munu smám saman síast ínn í vitund fólks án þess að minnka vægi trúarvitundar. Það er ekki hægt að þvinga á lýðræði utan frá, en Roy telur að ákveðið ferli lýðræðisvæðingar sé að eiga sér stað á forsendum Íslam, og telur hann Tyrkland vera gott dæmi, en þar hefur sá flokkur sem er við völd og sem hingað til hefur verið talinn íslamískur tengt saman lýðræði, trúarbrögð og kapítalisma (a la „protestan ethic of capitalism“). Roy telur hvorki þvingaða veraldarvæðingu né fjölmenningarhyggju vera svarið, því hvort tveggja gangi út frá því að það séu órjúfanleg bönd á milli etnískrar menningar og trúar, þ.e. að t.d. Íslam sé afmörkuð og eðlislæg menning (og þar með ósamræmanleg veraldlegri hugsun). Roy bendir á að menningarlegar skírskotanir séu að minnka á kostnað trúarlegrar sjálfsvitundar á eigin forsendum, að rof eigi sér stað á milli trúar og menningar/samfélags (sem geti leitt til fúndamentalisma og einangrunar). Flestir múslimar á vesturlöndum vilja vera viðurkenndir bæði sem múslimar og borgarar innan ramma hinna evrópsku þjóðríkja í stað þess að vera skilgreindir sem einhvers konar etnískur/menningarlegur minnihluti. En það er á brattan að sækja því þeir þurfa viðvarandi að horfast í augu við þá fordóma að trú og menning sé það sama og þar af leiðandi munu þeir lengst af vera „útlendingar“, eða framandi „hinir“ og oftar en ekki lúta í lægra haldi í baráttunni um gæði samfélagsins og þannig endurskapa og viðhalda ákveðinni jaðarstöðu sem lágstétt og fjarlægð við „meirihlutassamfélagið“.

Hugmyndafræði/flóð

febrúar 15, 2008

Nokkrir smá punktar, meðan ég er á vatnspumpuvaktinni í kjallaranum. Fyrst langar mig að benda á þá mjög svo fínu umræðu um Kóraninn og íslam á Kóranbloggi Guardian. Þar skiptast margir áhugasamir og lærðir á skoðunum hvað varðar merkingu þessarar merku bókar. Fólk setur spurningamerki við margt, er ósammála um enn fleira en allt er á siðsamlegum nótum, fátt um öfgafull útbrot. Mæli með þessari sérstöku bloggsíðu fyrir áhugafólk um þetta viðfangsefni. En að allt öðru. Þar sem ég bograði yfir vatnspumpunni rifjaðist upp fyrir mér ákveðið atriði – út frá hræðsluhugmyndum „okkar“ um ógn Austursins meðal okkar. Ef litið er á 20. öldina og öll þau yfirgengilegu ógnarverk sem voru framin á því merka tímabili, liggur í augum uppi að þau trúarbrögð, og þær öfgar sem forrituðu þær skelfingar var vestræn veraldarhyggja (kommúnismi, nasismi, fasismi, og kapítalismi): Hitler, Stalín, Pol Plot, Franco, Pinoche, Maó, þarf að fara lengra? Svo maður minnist nú ekki á Nýlendustefnuna (sem hafði verið í gangi í hálft árþúsund – og er enn). Það má jafnvel nefna hinn hnattvædda kapítalisma nútímans í sömu andrá, sem hefur rústað heilu samfélögunum á okkar dögum. Það er ekki svo vitlaust að halla huganum aðeins að hlut þessara hugmyndafræða hvað varðar ómældar hörmungar af manna völdum. Sú ógn sem við teljum steðja af íslömskum ógnarverkamönnum (ég ætla ekki að taka hanskann upp fyrir ofbeldi af neinu tagi, aldrei) eru smámunir miðað við þann hrylling sem framinn var í nafni veraldarhyggjunnar á 20. öld, og oftast undir fána framfara. Hér er bara bent á þetta til að setja hluti í smá sögulegt samhengi. Kveikjan að þessum hugleiðingum, svona fyrir utan vatnspumpuna í kjallaranum, var fullyrðing greinarhöfundar í nýjasta Mannlífi um að ákveðin hræðsluáróðursbók dönsk væri „stórmerkileg og afar þörf“ um eitt mesta vandamál vesturlanda (sjá síðustu færslu). Við ættum að líta okkur nær hvað varðar ógnarverk og almenn illindi, „við“ höfum verið fullfær um að sinna þeim í gengum tíðina, og okkur hefur líka tekist bærilega í seinni tíð að flytja þá starfsemi til fjarlægra landa, undir sömu formerkjum og áður og fengið sumt af því í hausinn aftur. Þarf að fara niður og huga að flóðpumpunni.