Archive for the ‘Uncategorized’ Category

Enuruppvakning

desember 5, 2010

Hér mun bloggsíða sem hófst fyrir alllöngu – og sem var tilraunaverkefni sem fjaraði út – verða endurreist. Hér mun útgerðarmaður hennar viðra „allskonar“ mál og málefni sem að honum sækja – og ætti að vera af nógu að taka. Fyrsta færsla mun smella hér inn í mjög nálægri framtíð og er það von að síðan muni endast lengur en í fyrstu atrennu.

Auglýsingar

Samfélag múslima í Mannlífi

febrúar 15, 2008

Umfjöllun Mannlífs (31.jan.08) um „samfélag múslima á Íslandi“ var frekar fyrirsjáanleg og í stíl við þann gæðastaðal sem ríkir meðal margra álíka pésa. Á blaðsíðu 6 er mynd af ímynd „vonda kallsins“, Arabi með byssu og barn ásamt meðfylgjandi texta: „samfélag múslima á Íslandi“. Sem sagt, þetta er andlit þess samfélags. Undirliggjandi áróðurstækni klikkar ekki. Hvað er þessi inngangsmynd að segja okkur? Að barnið sé gísl vonda Arabans? Að vondi Arabinn sé að kenna barninu drápstækni, að innprennta illsku Íslam í saklausan huga barnsins? Og á Íslandi? Eða er þetta bara saklaust grín? OK, flettum áfram. Á bls. 26 er opnumynd frá bænahaldi múslima í húsakynnum (mosku) þeirra í Ármúlanum ásamt meðfylgjandi texta um að „málefni þeirra [hafi] farið nokkuð hátt að undanförnu[…]“. Er það þannig? Það var smá frétt í fjölmiðlum frá hátíð múslima (þar sem undirritaður var til staðar) á Íslandi um miðjan desember til minningar um fórn Abrahams ættfaðirs. Mikið meira hefur það nú varla verið, sú umræða, enda eru múslimar allt að ósýnilegur (og smár) hópur hér á skeri. Með þessari svuntu er ágætis viðtal við Salman Tamini, formann Félags múslima, enda er sá maður viðkunnalegur mjög. Á bls. 32 er ágætis viðtal við Brahim Boutarhroucht um konumissi og aðrar alvörur lífsins. Svo kemur grein um danska bók um íslamisma (og naívista) eftir danskt par sem eru yfirlýstir íslamófóbistar. Þessi bók virðist mega flokka undir hræðsluáróður (ég hef ekki lesið hana, en séð umfjöllun, og kannast við skoðanir höfundanna), og höfundur greinarinnar segir okkur að þetta sé „stórmerkileg og afar þörf bók“ um „alvarlegasta vandamál“ vesturlandabúa (hefur hún aldrei heyrt um G.W.Bush?). Með þessari grein eru tilvísanir í þekktustu hræðslumangara (scaremongers) á væng íslamófóbista. Síðan birtis vondi kallinn með byssuna og barnið aftur og reynist það vera afi með barnabarni sínu (íslensku) að gantast í Palestínu og með fylgir grein um uppgjör sonar (barnsins á myndinni) og föður (sonur vonda kallsins), þar sem ágreiningur um trúmál var kveikjan. Kannski að Freud ætti að kíkja á afann með byssuna. Að lokum er viðtal við múslimska konu, Ashura Ramadhan, frá Zansibar, sem finnst gott að búa á Íslandi. Með greininni er fín mynd af þessari huggulegu konu, en bíddu nú aðeins, hvar er slæðan? Berar axlir? Detta nú allar dauðar… Það er gífurlegur menningarlegur fjölbreytileiki innan vébanda hins „múslimska heims“ og það sést ágætlega á umfjöllun Mannlífs um nokkrar múslimskar sálir á Íslandi. En það er dæmigert að það er ekki hægt að bera þetta efni á borð öðru vísi en að krydda það með hræðsluáróðri og fordómum. Ætli umfjöllun um „samfélag kaþólskra“ mundi ganga án umfjöllunar um glæpi hennar á miðöldum eða barnaníðinga hennar á okkar dögum. Ætli dálkahöfundar Mannlífs sæju sig nauðbeygða til að hafa það með? Svari því hver sem vill.

Afvegaleiddar öryggisaðgerðir

ágúst 9, 2007

Ég rakst á þessa grein sem sýnir hversu langt „öryggisverðir okkar“ vilja ganga til að vernda okkur gegn okkur. Eða bara hafa okkur alla daga og nætur undir eftirliti. Hvaða öryggisfyrirtæki er hér um að ræða (sbr. næsta pistil hér á undan)? Eða með öðrum orðum: hvaða paranoid vitleysa er þetta? Hversu langt eiga þessir aðilar að fá að ganga til að gera okkur lífið leitt? Eins og segir í greininni þá verða margir stressaðir og „grunsamlegir“ þegar þeir sjá allt fullt af löggum og öryggisvörðum í kringum sig, mænandi á sig, þótt blásaklausir séu. Setja á okkur lygamæli án þess að við vitum það?!? Getur svona mæligræja séð hvort hinn stressaði sé að fara að rífast við skattinn, hafi verið að rífast við konuna eða er að koma niður af amfetamíni, eða ætli að sprengja heiminn í loft upp? Eða er bara taugaveiklaður að upplagi? Detta mér allar dauðar lýs úr hári! Þetta væri reyndar yfirgengilega fáránlegt ef ekki væri að svona græjum verður komið fyrir út um allan bæ (ef ekki nú þegar) með þeim afleiðingum að hinn yfirstressaði nútímamaður liggur allur undir grun um að hafa vafasamar hugsanir í hausnum og hættuleg áform á prjónunum. Mér finnst að fólk ætti að fara að rísa upp gegn þessari vöktunar og eftirlitsmaníu yfirvalda og einhverra öryggisfyrirtækja út í bæ, sem eru eingöngu að þessu peninganna vegna. Ef ég man rétt þá var það einhver af forsprökkum að stofnun USA og ritunar hinnar ágætu stjórnarskrár þeirra Kanamanna sem sagði að fólk sem fórnar frelsinu vegna öryggis ætti hvorugt skilið.