Endurnýjun lífdaga

febrúar 13, 2008

Þessi síða, eins og fram hjá öllum hefur farið, hefur verið í dvala síðan síðasliðið sumar en það er ekki út af því að tíminn hafi staði í stað og ekkert gerst. Það er ekki svo. Það er út af einhverju öðru. Hverju? Tja, ef ég vissi það. En nú stendur til að hefja þessa síðu til endurnýjunar lífdaga með hækkandi sól á Fróni og mun næsta færsla verða að veruleika innan skamms. Það er ekki ólíklegt að umfjöllunarefni síðunnar munu snerta Íslam og múslima á einhvern hátt þar eð ég er að stúdera þann heim þessa dagana, en ýmislegt annað mun skjóta upp kollinum. Það er spurning hvort maður nenni að eyða púðri á íslensk/reykvísk stjórnmál, eða hvaða nafni því skyldi nú gefa, þvílík lágkúra sem það er þessa dagana. Fótbolti, kannski, mínir menn Arsenal eru nú með fimm stiga forystu í deildinni og munu heimsækja ManU á OT í FA bikarnum á laugardaginn kemur og fá AC Milan í heimsókn á miðvikudaginn í næstu viku í CL. Spennandi tímar framundan á því sviði. Titilinn í ár? Því ekki það. Kemur í ljós í maí. Næsta færsla á leiðinni….

Auglýsingar

Sjálfsmorðssprengjur og aðrar sprengjur

ágúst 21, 2007

Hér er fjallað um málefni sem hefur verið mikið í umræðunni og valdið óhug flestra. Mannfræðingurinn Talal Asad tók sig til og skrifaði bók um þetta fyrirbæri og ber hann þar saman ýmsar tegundir ofbeldis – löglegs og ólöglegs – sjálfsmorðssprengjur (og önnur ógnarverk) og hernaðaraðgerðir ríkisvalds. Ef smellt er á „skrifaði bók“ er m.a. hægt að lesa inngang Asads að bókinni. Hann spyr sjálfan sig hvort til sé eitthvað sem kalla megi ógnarverk knúin áfram af trúarbrögðum. Ef svo er, á hvaða hátt eru þau öðru vísi en önnur tegund grimmdar? Hvað er það sem gerir þessa hvatningu – annað en þann einfalda ásetning að drepa – trúarlega? Hvernig stendur þessi tegund grimmdar í samanburði við aðrar gerðir opinbers ofbeldis? Hvernig er ímynd sjálfsmorðssprengjumannsins, sem kálar sjálfum sér og öðrum, litin af kristnum mönnum og post-kristnum? Spyr Talal Asad. Hann snýr sér að skrifum mannfræðinga um að ógn (terror) sé upplausn félagslegrar og persónulegrar sjálfsvitundar og forms almennt. Samkvæmt Asad er krossfesting Krists frægasta sjálfsmorð í sögunni og hann telur að hryllingur sá er tengist henni hafi verið ummyndaður í það að frelsa mannkyn – fyrir tilstilli samtengingar grimmdar og samkenndar – og að þessi frásögn/goðsögn hafi alltaf heillað menn og búi yfir miklum krafti.

Asad segir að það sem honum finnist athyglisvert sé, að hversu mikið sem við reynum að greina á milli siðferðislega góðs og siðferðislega ills máta að drepa, feli það í sér miklar mótsagnir sem geri okkur erfitt fyrir. Megin hugmynd Asads er að tilurð ógnar og framkvæmd ógnarverka séu birtingarmyndir hernaðaraðgerða í heimi sem einkennist af ójöfnuði, hugmynda okkar um hvað sé grimmd og hvað sé nauðsyn, og þeirra tilfinninga um það hvort ákveðin tegund dráps sé réttmætanleg eða fordæmanleg.

Asad ber þannig saman tegundir ofbeldis, eina sem er framkvæmd af ríkisvaldinu (með hervaldi) og annarrar sem er framin af hópum utan valdasviðs ríkisins, og ofast gegn því. Ofbeldi ríkisvaldsins einkennist m.a. af lögmætingu og réttmætingu sem sé samtenging grimmdar og ástríðu sem þróaðar þjóðfélagslegar stofnanir hvetja til og gera kleift. Hann bendir á að ofbeldi af þessu tagi hafi á bak við sig skipulag og afl sem t.d. ógnarverkasveitir búi ekki yfir.

Hugmyndafræði þjóðríkisins getur þannig löggilt ofbeldi sem það beitir öðrum í stríðsrekstri sínum. Ef ógnarverkamaður sprengir sjálfan sig upp og tekur önnur mannslíf með sér er það glæpur, og getur ekki verið annað en illska. Ef sprengjur úr F16 þotu drepa hóp saklausra íbúa bæjar eða borgar, er það kallað hliðarverkanir (colateral damage). Dráp ríkisvaldsins er réttmætt, er nauðsynlegt, dráp ógnarverkamannsins er glæpur og illska. En hvoru tveggja býr yfir sínum innri rökum og nauðsyn og yfir eigin réttmætingu.

Asad varar við því að lesendur bókarinnar misskilji erindi hans. Hann leggur áherslu á að hann er ekki að halda því fram að verk ógnarverkamanna geti nokkurn tíma verið siðferðislega réttmætanleg. Honum finnst það vera mjög áhrifamikið hversu auðvelt það er fyrir hið nútímalega þjóðríki að tortíma og glundra lífi á miklu öflugri hátt en nokkurn tíma áður og að ógnarverkamenn muni aldrei geta orðið jafn árangursríkir í sínum eyðileggingum. Það sem Asad finnst merkilegt er að það eru ekki drápin og afmennskunin sem skiptir mestu máli heldur hvernig þau eiga sér stað og hvað liggur að baki.

Í lok inngangsins tekur Asad það fram að erindi hans sé engan vegin að benda á haldbæra lausn á þessu þverstæðukennda vandamáli stofnanavædds ofbeldis. Né heldur dettur honum í hug að hægt sé að viðurkenna eina tegund ofbeldis andstætt annarri. Von hans er að lesandinn verði fyrir nægilegri truflun svo hann/hún geti litið á þetta flókna mál úr fjarlægð í stað þess að gleypa allt sem fjölmiðlar og stjórnmálamenn bera á borð fyrir fólk á frekar einhliða hátt.

„Við“ og slæðan „hinna“

ágúst 15, 2007

Í þessari ágætu grein eftir mannfræðinginn Lila Abu-Lughod – sem er af palestínskum ættum og menntuð á vesturlöndum (m.a. Harvard) – er fjallað um ímyndir „okkar“ um hætti „hinna“. Höfundur hefur gert áratuga langar rannsóknir á heimi kvenna í miðausturlöndum, m.a. bedúínakonum í Egyptalandi. Það var hinn palestínski Bandaríkjamaður Edward Said sem gerði ítarlega grein fyrir þessari skynjun „okkar“ á „hinum“ í bók sinni Orientalism.

Lila Abu-Lughod notar slæðunotkun múslimskra kvenna og hina miklu umræðu – allt að því þráhyggjukennda – sem birtingamynd umræddrar ímyndar og skynjunar „okkar“ á „hinum“. Hún bendir m.a. á að sú hugmynd „okkar“ að allar slæðuberandi múslimskar konur séu þjakaðar af ofríki og kúgun karlaveldis, trúar og hefða, sé að mörgu leyti á misskilningi byggð. Hluti misskilningsins sé að vissu leyti grundvallaður á því viðhorfi „okkar“ að við séum komin lengra á einhverjum (af okkur skilgreindum) þróunarvegi en „hinir“ og að þeir þurfi á aðstoð okkar að halda til að öðlast aukið frelsi og upplýsingu. Með öðrum orðum, þá vitum „við“ betur hvað „hinum“ er fyrir bestu. Gerum við það?

Lila Abu-Lughod bendir á þá þrálátu staðalmynd sem við höfum varðandi blæjunotkun múslimskra kvenna, og sem slík hefur öðlast visst þráhyggjueinkenni í huga (og fjölmiðlum) „okkar“ í hvert sinn sem talið berst að menningarheimi múslima (eins og hann sé eitthvert einsleitt fyrirbæri). Hún bendir á að allt of oft sé litið fram hjá hinum mikla fjölbreytileika í reynsluheimi milljóna múslimskra kvenna ásamt hinum margvíslegu háttum hvað varðar notkun sjálfrar slæðunnar. T.d. er sú tegund sem þekkt er úr heimsins fjölmiðlum frá Afganistan, burka, svæðisbundið einkenni kvenna af Pashdun etnerni á landamærum Afganistan og Pakistan. Þessi tegund slæðu tíðkaðist á þessu svæði fyrir tíma Talibana sem og eftir. Það má minna á að Talibanarnir voru uppfinning USA/CIA í baráttunni fyrir frelsi heimamanna.

Lila Abu-Lughod álítur að leiðir fólks til frelsis/frelsunar séu jafn margar og fjölbreytilegar og fólkið sjálft. Að engin ein hugmynd eða aðferð sé öðrum æðri og henti öllum jafnt. Einnig varar hún við þeirri tilhneigingu „okkar“ til að vorkenna „hinum“ (vegna skorts á frelsi og þróun) og þá einkum og sér í lagi slæðuberandi múslimskum konum. Í stað þess að einblína á slæður ættum við að reyna að stuðla að réttlæti og friði í heiminum og einnig að hafa í huga hvaða áhrif afskipti „okkar“ (vestursins) af „hinum“ (miðaustrinu) hefur haft á pólitískt landslag svæðisins og hvaða þátt þessi afskipti eiga við myndun alls kyns (mismunandi mikilla) islamískra öfgahópa sem nota trúna sem pólitískt vopn í andspyrnu sinni gegn „okkur“ og „okkar“ áhrifum. Einn slíkur hópur eru Talibanarnir, skilgetið afkvæmi afskipta „okkar“ af „hinum“.

Þessi grein Lila Abu-Lughod er fín lesning fyrir þá sem hafa áhuga á að skyggnast aðeins á bak við slæðuna alræmdu.

Afvegaleiddar öryggisaðgerðir

ágúst 9, 2007

Ég rakst á þessa grein sem sýnir hversu langt „öryggisverðir okkar“ vilja ganga til að vernda okkur gegn okkur. Eða bara hafa okkur alla daga og nætur undir eftirliti. Hvaða öryggisfyrirtæki er hér um að ræða (sbr. næsta pistil hér á undan)? Eða með öðrum orðum: hvaða paranoid vitleysa er þetta? Hversu langt eiga þessir aðilar að fá að ganga til að gera okkur lífið leitt? Eins og segir í greininni þá verða margir stressaðir og „grunsamlegir“ þegar þeir sjá allt fullt af löggum og öryggisvörðum í kringum sig, mænandi á sig, þótt blásaklausir séu. Setja á okkur lygamæli án þess að við vitum það?!? Getur svona mæligræja séð hvort hinn stressaði sé að fara að rífast við skattinn, hafi verið að rífast við konuna eða er að koma niður af amfetamíni, eða ætli að sprengja heiminn í loft upp? Eða er bara taugaveiklaður að upplagi? Detta mér allar dauðar lýs úr hári! Þetta væri reyndar yfirgengilega fáránlegt ef ekki væri að svona græjum verður komið fyrir út um allan bæ (ef ekki nú þegar) með þeim afleiðingum að hinn yfirstressaði nútímamaður liggur allur undir grun um að hafa vafasamar hugsanir í hausnum og hættuleg áform á prjónunum. Mér finnst að fólk ætti að fara að rísa upp gegn þessari vöktunar og eftirlitsmaníu yfirvalda og einhverra öryggisfyrirtækja út í bæ, sem eru eingöngu að þessu peninganna vegna. Ef ég man rétt þá var það einhver af forsprökkum að stofnun USA og ritunar hinnar ágætu stjórnarskrár þeirra Kanamanna sem sagði að fólk sem fórnar frelsinu vegna öryggis ætti hvorugt skilið.

Einkarekinn stríðsgróði

ágúst 7, 2007

Eins dauði er annars brauð, segir sígilt máltæki. Samkvæmt þessari grein er stríð í sívaxandi mæli orðið einkarekinn bissniss, sem eins og allur annar slíkur, krefst ávöxtunar til handa hluthöfum og bakhjörlum. Sumir hafa litið á árásina á írak sem yfirgripsmikla viðskiptaáætlun, þ.e. að ná völdum yfir olíulindum landsins. Það lítur næstum því svo út í dag að sú áætlun hafi mistekist. En sá hryllingur sem á sér stað í Írak í dag er augljóslega feit fjárþúfa fyrir einkarekin stríðsfyrirtæki. Þessir einkareknu málaliðar eru ekki bara að „störfum“ í miðausturlöndum, heldur út um allan heim, og þeim tengjast einnig í vaxandi mæli einkareknar njósnastofnanir, sem bera ekki ábyrgð gagnvart ríkisvaldinu, heldur hluthöfum. Þessi markaðsvæðing stríðsreksturs er af áður óséðri stærð í sögu nútímans. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli að til að tryggja afkomu þessarar starfsgreinar þurfa að vera stríð einhvers staðar í heiminum og ef til þarf, að búa þau til.

Ein af algengustu og viðurkenndustu skilgreiningum á þjóðríkinu er að það hefur einkaleyfi á beitingu þvingunarvalds og ofbeldis, bæði innan marka þess og utan. Eins og sjá má af ofannefndri grein eru sumir orðnir uggandi yfir þessari þróun, því þessi hornsteinn þjóðríkisins, þ.e. einkaleyfi á ofbeldi, gæti átt á hættu að dreifast og færast til einkaaðila, sem bera ekki ábyrgð gagnvart ríkinu/landinu, heldur hluthöfum og bakhjörlum. Fyrir hverja eru þessir tindátar að berjast? Hverjum bera þeir hollustu? Hver hefur stjórn á þeim? Við þessar spurningar má örugglega bæta, en þær eru allar lögmætar.

Hér má sjá heilagt samráð vopnaframleiðenda og einkaherja, sem sjá sér leik á borði að mata krók sinn feitt, ásamt öfgafullum sértrúarhópum, en eins og kemur fram í nefndri grein þá er forsprakki eins helsta málaliðafyrirtækisins (Blackwater), öfgafullur kristinn hægri repúblikani (Eric Prince). Margir af hans líkum trúa á heimsendaspár Opinberunarbókar Jóhannesar, og að þeir séu að leggja hönd á plóginn við að stuðla að Endinum. Og ekki er verra að fara með feitan bankareikning til himnaríkis, gróða eyðileggingarinnar. En það sem er eiginlega kaldranalegast við þetta er að þessir einkareknu vígamenn hafa fullan stuðning valdamestu stjórnmálamanna heims, sem deila bæði tilganginum og meðalinu.

Það er ein hlið á þessu máli sem er vert að athuga aðeins. Þjóðríkið er tiltölulega ný uppfinning og lýðræði einnig, og er hvorugt sjálfgefið. Þjóðríkið var eiginlega búið til sem umgjörð – stærri en tíðkast hafði áður – um stórvaxandi auðsöfnun í kjölfar nýlendustefnunnar og iðnbyltingarinnar og aðgang að meiri fjölda manna til vinnu og til stríðsreksturs: til að framleiða meira og verja ágóðann en einnig til að komast yfir auð annarra. Það þurfti í auknum mæli að manna verksmiðjurnar og herinn. Í dag lítur heimurinn allt öðru vísi út. Framleiðslan (vinnan) er flutt til þriðja heimsins, þar sem nóg er til af ódýru vinnuafli, auðurinn er orðinn alþjóðavæddur og, eins og sést hefur hér, þá er réttur til ofbeldis orðinn einkavæddur og alþjóðavæddur meira en áður þekktist. Á sama hátt og auður og framleiðsla hefur fólk í vaxandi mæli alþjóðavæðst – flust á milli heimshluta og útvíkkað svokallað þjóðerni sitt. Hvað verður þá eftir handa þjóðríkinu?

Ef og þegar valdbeiting og ofbeldi, ásamt upplýsingasöfnun (njósnum) er komið á þetta stig, hvernig mundi það líta út ef t.d. lýðræði eins og við þekkjum það í dag, og sem kostaði svita, tár og blóð, yrði afnumið af valdamestu stofnunum heims? Hvað mundu þeir gera við allar þær upplýsingar sem þeir hafa safnað um „okkur“? Hvernig lög og reglur mundu þeir setja? Þessum spurningum er vert að gefa gaum, t.d. í samhengi við alls kyns gagnabanka sem er alltaf verið að koma upp, leynt og ljóst, og samkeyrslu rafrænna upplýsinga um neysluvenjur og ferðir fólks. Nú þegar eru stjórnvöld í USA og Bretlandi (og víða annars staðar) búin að herða tök sín á frelsi fólks og eru í auknum mæli að draga til baka alls kyns borgaraleg réttindi í nafni öryggis.

Einkaherir og aðrar vafasamar en öflugar stofnanir gætu með þessu áframhaldi sölsað undir sig völdin í heiminum og skapað algerlega nýja heimsmynd. Eru öryggisventlar nútíma þjóðríkis nógu öflugir til að sporna við þessu? Stendur lýðræði nægilega föstum fótum? Eru alþjóðastofnanir á borð við SÞ nógu sjálfstæðar og sterkar til að koma í veg fyrir svona (hugsanlega) þróun? Var viðskiptaáætlunin „árásin á Írak“ ekki framkvæmd í óþökk „alþjóðasamfélagsins“, þ.e. SÞ?

Þessar hugleiðingar um nokkuð sem gæti mögulega gerst, en þyrfti að sjálfsögu ekki að gera það, ættu að undirstrika mikilvægi þess að borgarar heimsins séu vakandi gagnvart valdinu, bæði hinu löglega og sýnilega sem og hinu falda. Saga síðustu aldar ætti að nægja til að gera sér grein fyrir því að það er ekki mikið mál að skipta út stjórnskipulagi og afnema rétt og búa til ný lög.

HM heimilislausra lokið

ágúst 7, 2007

Þá lauk hinu frábæra HM móti í fótbolta heimilislausra laugardaginn 4. ágúst á Ráðhústorginu í borginni við sundið. Skotar unnu bikarinn sem Friðrik krónprins afhenti. Hans líf er alger andstaða hinna heimilislausu. Hann sem krónerfingi er bundinn við heimili sitt og föðurland – er í vissum skilningi ófrjáls. Hann getur ekki flutt eða breytt til þó svo hann langaði. Það yrði alla vega mikið mál. Hinir heimilislausu eru án fasts samastaðar en krónprinsinn er bundinn í báða skó, ef það má orða það þannig. Prinsinn er rótbundinn/fastur, heimisleysingjarnir eru rótlausir, á flótta undan óreyðu og ógæfu.

Ég horfði á marga leiki og voru margir þeirra mjög skemmtilegir og margir leikmenn ótrúlega góðir. Það er t.d. athyglisvert, og jákvætt að lið Líberíu, sem er ný risin úr langvarandi borgarastyrjöld (þar sem svona strákar voru notaðir sem hermenn og drápsmenn) og lið Zimbabwe, sem er ríki á barmi hruns, stjórnað af geðsjúkum einræðisherra, léku mjög flottan, öruggan og skipulagðan fótbolta. Einnig var athyglisvert að lið Kirgisistans var eingöngu skipað stelpum (það var einhver strákur til vara, danskur að ég held), sem spiluðu mjög vel.

Einhverjir höfðu orð á því að margir afrísku strákarnir væru í svo góðu formi og svo vel skipulagðir í leik sínum að þeir gætu ekki verið heimilislausir götustrákar. Einn af forsprökkum mótsins, og stofnandi, Skoti nokkur, svaraði því til að þessir strákar færu á fætur klukkan fimm á morgnanna til að æfa, því þeir vissu að með stífum æfingum, vinnu og elju tækist þeim mögulega að lyfta sér upp úr annars vonlausri stöðu. Það sem er frábært við þetta mót er að meirihluta þeirra sem hafa tekið þátt vegna þessarar afstöðu hefur tekist að umbreyta lífi sínu með þessu viðhorfi.

Það kom í ljós að nokkrir afrískir strákar höfðu horfið og síðast þegar ég vissi var orðrómur götunnar á því að þeir hefði farið til Svíaríkis. Hver getur láð þeim það. Mér fannst mikil skemmtun af þessu móti og manni hlýnaði um hjartaræturnar við að sjá bæði stuðning almennings/áhorfenda og þá staðreynd að yfir 80% af þeim einstaklingum sem hafa tekið þátt í þessari keppni síðustu árin hafa horfið til betri vega og tekist að hefja nýtt líf, sem er jú tilgangurinn með þessu móti. Eins og kjörorð mótsins segir: „48 teams, one goal“.

Mér fannst líka flott að sjá krónprinsinn standa með leikmönnum þeirra tveggja liða sem kepptu um HM titilinn á meðan þjóðsöngvar þeirra voru leiknir. Þetta hafði ákveðna táknræna þýðingu og Friðrik prins virtist fíla þetta í botn, eins og maður segir. Það hlýtur að hafa verið ólýsanleg tilfinning fyrir strák sem ólst upp í hryllingi borgarastyrjaldar í Líberíu eða stelpu sem hefur misst alla sína ættingja og ástvini vegna sjúkdóma eða átaka að taka þátt í svona atburði og fá alla þessa miklu athygli, vera hrósað og klappað fyrir og kvött áfram af alls kyns ókunnungu fólki sem lifir í allt öðrum heimi, heimi ofneyslu og öryggis, velsældar og ofgnóttar. Við getum ekki ímyndað okkar hvernig það er. Að vera vitni að þessu mikla menningarlega og félagslega átaki fyrir framan styttuna af Absalon biskupi hinum gyllta á framhlið ráðhússins var mikil upplifun og ógleymanleg, fyrir utan það að hafa komið mér skemmtilega á óvart, því ég hafði ekki hugmynd um að þessi atburður væri í gangi. Að lokum er hægt að fá upplýsingar um þetta mót hér.

Lög, menning, trú

ágúst 2, 2007

Einkar athyglisvert mál er komið upp hér í Danaveldi (þar sem ég er í smá sumarfríi) og er um það fjallað m.a. í Politiken 1. ágúst. Um er að ræða íraskan mann, sem vann sem túlkur fyrir herlið Dana í Írak. Eftir að ljóst fór að vera að algert upplausnarástand væri að taka völdin í Basra sem og annars staðar í hinu sundurtætta Írak – og að danski herinn væri á leið heim (er kominn heim á skrifandi stundu og var látið fara sem minnst fyrir því) – sótti maðurinn um flóttamannahæli í Danmörku.

Danir hafa haldið hliðum sínum vel lokuðum fyrir aðkomufólki síðustu árin, en þessi maður taldi sig hafa allar ástæður til að vera hleypt inn. En sá galli var á gjöf Njarðar að maður þessi á tvær eiginkonur, eins og tíðkast hjá mörgum í hans heimshluta. Og er hluti af menningunni, eins og sagt er svo oft. Samkvæmt lögum er fjölkvæni bannað í Danmörku, en túlkurinn íraski hefur fengið stuðning úr átt sem margir hefðu talið ósennilega. Nokkrir þekktir kirkjunnar menn hafa tjáð sig um málið og sett fram þá skoðun sína að maðurinn eigi að fá að búa með báðum konum sínum, sem hann er jú löglega kvæntur og kemur sem slíkur til landsins ásamt konum sínum tveimur. Bent var á að margir mikils metnir „forfeður“ júdeó-kristni (og islam), þ.á.m. Abraham, Jakob og Davíð konungur hafi átt fjöldan allan af konum og sand af börnum. Þekktir danskir trúmenn á borð við biskupinn í Viborg, Karsten Nissen, dómprófastinn í Kaupmannahöfn, Anders Gadegaard og guðfræðinginn Svend Andersen eru einróma um að það væri ómanneskjulegt að krefjast þess að Írakinn skildi við aðra konuna. Auk þess væri hvergi minnst á það í Biblíunni að þetta hjúskaparform væri bannað samkvæmt Guðs lögum. Telja mætti að valið væri ómögulegt og ómanneskjulegt og að slíkur skilnaður mundi svifta konuna sem hann neyddist til að skilja við mikilvægum lagalegum réttindum og stofna lífi hennar og barni/börnum (hann á þrjú börn með konunum) í hættu. Jesper Langballe, sem er oft kallaður svarti klerkurinn (sökum þröngsýni sinnar, fordóma og harðlyndis) er ekki sammála kollegum sínum. Hann segir að samkvæmt lögum sé fjölkvæni bannað í Danmörku. Punktur. Út með aðra konuna (les = þau öll)! Þetta er nokkuð lýsandi fyrir skilning svartklerksins, sem er einnig þingmaður fyrir danska þjóðarflokkinn (Dansk Folkeparti = DF), á kristilegum mannkærleika. En það sem er einnig athyglisvert er að ýmsir feministar hafa tjáð sig sammála klerkinum svarta á þeim forsendum að fjölkvæni sé birtingarmynd mismununar og kúgunar á konum og stríði auk þess á móti jafnréttislögum jafnt sem kvennasáttmála SÞ. Allir sem að málinu koma eru sammála um eitt: að það sé erfitt, en af ólíkum ástæðum.

Þetta mál er mjög athyglisvert því það veltir upp spurningum um réttindi: jafnrétti, mannréttindi, trúarleg og menningarleg réttindi og borgaraleg réttindi – og lög. Þegar lög þjóðríkisins eru komin í málið ásamt Lögunum (trúarbragða – ritningar) verður þessi samsuða öll frekar flókin. Mannfræðingurinn Gerd Baumann bendir á í bók sinni The Multicultural Riddle, Rethinking National, Ethnic, and Religious Identities (1999) að hugmyndir manna um réttindi séu nákvæmlega það: hugmyndir. Hann bendir á nokkur dæmi, í ætt við þetta umrædda mál, þar sem spurningin um réttindi, eða rétt fær sjaldnast annað en mótsagnakennd svör. Hann heldur því fram að það muni alltaf vera mjög erfitt, jafnvel ógjörningur, að framfylgja réttindum allra í sama þjóðfélagi/ríki, hvað þá í öllum heiminum – ríki hafa líka ólíka hagsmuni. Hagsmunir ríkisins (festir í lögin) og hagsmunir ólíkra hópa – menningarlegir, trúarlegir eða etnískir – geti auðveldlega rekist á. Sérstaklega telur hann erfitt að eiga við trúarlega sannfæringu fólks, einkum þá sem færð hefur verið í ritningar, því þar sé um að ræða Lög, sem séu lögunum æðri. Þar sé sannleikurinn, eðli sínu samkvæmt, hafinn yfir nokkurn vafa. Einnig getur fólk haft óhaggandi pólitískar skoðanir (og vísað í skoðanafrelsi) og krafist tiltekinna réttinda þeirra vegna sem geta auðveldlega stangast á við hugmyndir (lög) ríkisins, sem þó á að standa vörð um skoðanafrelsið. Og fjölmörg dæmi hafa verið til um mismunandi útfærslu réttinda eftir etnerni (sbr. t.d. blökkumenn í USA og S-Afríku ekki fyrir svo löngu síðan, Sama í Noregi eða frumbyggja USA, svo eitthvað sé nefnt). En Baumann leggur áherslu á þá staðreynd að þessir þættir, þ.e. menning, trú, etnerni og þjóðerni (tengt borgaralegum réttindum og lögum) eru alltaf að breytast og að einstaklingar eiga það til að skipta um þessa „tilheyrsluþætti“ eftir hentugleikum og aðstæðum, auk þess sem hver og einn búi yfir mörgum sjálfsmyndum sem geta verið mjög sveigjanlegar, allt eftir samhenginu. Ekkert af þessu er óbreytanlegt, samkvæmt Baumann (og flestum fræðimönnum sem fjalla um þessi mál).

Samkvæmt mannréttindasáttmála SÞ eru mannréttindi algild, en er það fullkomlega raunhæft? Um þetta hefur verið mikið deilt og þeir sem hafa sett spurningamerki við algildi mannréttinda hafa verið ásakaðir um óforsvaranlega menningarlega afstæðishyggju sem réttmætir hvers kyns yfirgang og kúgun, allt í nafni menningarinnar. Það má skjóta því inn hér að samið hefur verið uppkast (sem ég held að sé gildandi – þarf að athuga það betur) að mannréttindasáttmála frumbyggja um heim allan. Þar er tekið tillit til aðstæðna og lífsskilyrða sem eru ólík þeim sem gilda í hinum iðnvædda heimi þjóðríkja. Með þessu er það viðurkennt að það er ekki hægt að setja alla í sama bás, þ.e bás hins ráðandi meirihluta. Þessi sáttmáli miðar m.a. að því að vernda landréttindi og samfélagsform frumbyggja, sem eru jafn fjölbreytileg og þau eru mörg og er þeim oft ógnað af hagsmunum þjóðríkja og/eða stórfyrirtækja.

Hægt er að þvinga hugmyndum eins hóps um réttindi yfir á annan án þess að sá kæri sig um það. Umræðan um slæðunotkun múslimskra kvenna er eitt dæmi um þetta. Taka má fram að milljónir hindúakvenna bera einnig slæður og milljónir múslimakvenna bera ekki slæður. Er það ekki réttur hvers einstaklings að ákveða það sjálf? Sú umræða er of löng og margþætt fyrir þennan pistil, en að henni mun verða vikið seinna.

Eins og ég vona að hafi komið í ljós, þá er hugmyndin um réttindi, svo maður tali nú ekki um jöfn réttindi, ekki eins einföld og margir vilja halda. Mismunandi hópar fólks hafa mismunandi hugmyndir um þennan þátt tilverunnar eins og aðra og margir kæra sig ekki um að vera þvingaðir af öðrum til að vera sammála. Svo gæti maður haldið að það væru sjálfsögð mannréttindi að eignast þak yfir höfuðið og eiga í sig og á. Ættum við ekki að byrja þar? Sumstaðar hefur fólk stjórnarskrárbundinn rétt til að eiga skotvopn og að nota þau. Eru það réttindi sem allir eiga að vera sammála um? Svona mætti lengi halda áfram en ég hef hugsað mér að velta þessum málum upp síðar og þá sér í lagi mismunandi viðhorfum um hvað réttindi eru. Réttur er álíka snúið hugtak og frelsi, enda hanga þau á sama prikinu. Meira um þetta seinna.

Í dag: fótbolti

júlí 30, 2007

Er í fríi í Köben og er að fara að horfa á HM í götufótbolta sem hefst hér í dag og mun eiga sér stað á Ráðhústorgi borgarinnar. Þessi lið leika aldrei á heimavelli. Hér munu mæta til leiks götustrákar og stelpur vítt og breytt úr fátækrahverfum stórborga heimsins sem hafa tekið upp á því að spila fótbolta á götunni og í bakgörðum borga sinna. Þetta mót er haldið með reglulegu millibili og hefur hjálpað mörgum fátækum unglingnum að öðlast sjálfstraust og trú á að það sé hægt að lyfta sér upp úr eymd fátæktar með þeirri blöndun einstaklingsframtaks og frumkvæðis ásamt samvinnu og liðsheildar, sem eru megin einkenni hópíþrótta á borð við fótbolta. Í dag er einnig úrslitaleikur í Asíumeistarabikarnum (Asia Cup) og mæta til þess leiks Írak og Sádí Arabía. Í liði Íraka eru Kúrdar, Shíar og Súnníar, sem leggjast á eitt við sigla liði sínu til sigurs með sameiginlegu átaki og uppbyggjandi baráttuvilja. Það þarf varla að taka fram að í hinu sundurtætta heimalandi þessara ungu manna (sem hafa allir misst ættingja og ástvini í þessum átökum) berast þessir sömu hópar á banaspjótum. Auk þess er búist við því að Írakar í Írak, af hvaða etnerni eða trúarstefnu sem er, muni sameinast yfir þessum fótboltaleik. Ef fótbolti getur hjálpað fátækum ungmennum til bjarga og stöðvað átök (þó aðeins um stundarsakir sé) þá bið ég bara um meiri fótbolta – og einnig um að hinn vaxandi þáttur græðgi og yfirgengilegs peningauasturs í evrópskum fótbolta verði endurskoðaður. Hver á skilið að fá 130.000 pund í laun á viku fyrir að spila fótbolta? Hvað réttlætir að leikmaður kosti 30 milljónir punda? Allt þetta er vert rannsóknarefni.

Fór á HM götubolta á Ráðhústorginu. Sá m.a. Portugal vinna Brasílíu, Líberíu vinna Finnland, Mexíkó vinna Tékka og Úkraínu bursta Chíle. Það voru fjórir leikmenn (af báðum kynjum) með markmanni og hvor hálfleikur var korter. Það var stórskemmtilegt að horfa á þetta og var mikil stemming meðal áhorfenda þangað til að skyndilegt skýfall fældi marga í skjól. Írak vann Sádí Araba í úrslitaleiknum um Asíubikarinn og varð allt vitlaust í Írak – á jákvæðan hátt, í smá stund. Á blaðamannafundi eftir leikinn sagði fyrirliði Íraka að hann óskaði þess að Bandaríkjamenn hefði aldrei ráðist ínn í landið og að hann vildi að þeir færu sem fyrst. Pólitík, sjálfsmyndir og fótbolti.

Fór svo á enska búllu sem heitir Southern Cross, sem er krá stuðningsmanna Arsenal í Köben og sá mína menn leggja Inter Milan 2-1, þar sem Robin van Persie skoraði frábært sigurmark. Með þessum sigri unnu Arsenal Emirates bikarinn (það voru fjögur lið: Arsenal, Inter Milan, PSG og Valencia). Lið Arsenal sem er að ganga í gegnum algera endurnýjun spilaði mjög vel og einn ungur maður (17 ára), Kieran Gibbs, vinstri kantmaður sem virðist hafa dúkkað upp úr engu, fór illa með margan Ítalíumeistaran. Framtíðin lítur vel út í Grófinni þrátt fyri ýmsa svartsýnisdóma fjölmiðla á Englandi. Það þarf samt að kaupa alla vega tvo menn, vinstri kantmann og framherja.

Byrjun

júlí 29, 2007

Góðan daginn bloggheimar.

Þetta er fyrsta bloggfærslan hér og er tilfinningin eilítið eins og að tala við sjálfan sig. Þessi blogg er hugsaður sem vettvangur þar sem ég leiði hugan að ýmsum málum sem mér finnst athyglisverð. Það er aldrei að vita nema einhver/einhverjir séu til í að taka þátt. Þau mál sem ég mun væntanlega leiða hugann að tengjast almennt ýmsum þjóðfélagsmálum, mannfræði, einnig fótbolta og stjörnuspeki þegar það á við.

Ég hef stundað nám í mannfræði, á Íslandi og í Kaupmannahöfn og mun halda því áfram næstu árin (til doktorsgráðu) við H.Í. Sem hluta af MA námi vann ég vettvangsrannsókn á trúarbrögðum og véfréttum Biriformanna í norðvestur Ghana í vestur Afríku. MA ritgerðina og fleira tengt Birifor fólkinu má finna á þessu bloggi. Doktorsverkefni mitt mun fjalla um tvö trúfélög innflytjenda (eða nýbúa), múslima og búddista, á Íslandi. Þess má vænta að ég muni ræða um málefni því tengdu á þessum blogg, einkum þegar rannsóknin verður komin áf stað fyrir alvöru. Stjórmál og þjóðfélagsmál eiga áhuga minn á sama hátt og trúarbrögð: sem öfl í samfélaginu sem ekki er hægt að sniðganga, ekki frekar en hagfræði (sem ég hef reyndar ekki mikið vit á).

Einnig er líklegt að það muni slæðast hugrenningar um fótbolta, einkum þar sem enska félagið Arsenal FC kemur við sögu. Ég er forfallinn stuðningsmaður Skyttanna sem eru að ganga í gegnum mikla endurnýjun þessa dagana, eru með nýtt og ungt lið og munu vonandi halda áfram að heilla með hinum svokallaða Wengerball og með því gera atlögu að enska titlinum á þessari leiktíð. Þeir sem hafa ekki áhuga á fótbolta geta bara sleppt að smell á þann reit.

Hér líkur þessum stutta inngangi að mínu fyrsta fikti í bloggheimum. Sökum nýgræðingsháttar míns má örugglega búast við einhverjum tæknilegum hikstum, alla vega til að byrja með.

Becoming by acting

júlí 26, 2007

Short essay – 1998.

Download file