Siðabót Tyrkja/íslömsk bylting.

Ég sá í gær stórmerkilega grein á vef BBC varðandi áform Tyrkja um að gerbylta túlkun manna á íslam með því að endurskoða/endurtúlka allan HADITH bálk trúarbragðanna, sem er mjög mikill. Þar segir frá að tyrkneska ríkisstjórnin ætli að ráða her fræðimanna: íslamskra, en einnig kristinna og evrópskra heimspekinga, til að endurskoða allan hadith bálkinn og heimfæra hann á okkar tíma – en með því að fara aftur til tíma spámannsins og sniðganga allan þann menningarlega bagga sem þeir telja að hafi „mengað“ túlkanir á hadith (og Kóraninum). Einnig á að mennta og þjálfa 450 konur sem imama (bænapresta) og senda þær út í sveitir landsins til að útskýra hinn „upprunalega anda“ Íslam. Ætlunin er að skilja kjarnan frá hisminu: að fjarlægja alls kyns mismunandi forna og miður uppbyggilega siði staðbundinna menninga frá boðskap Kóransins og fyrirmælum hadith. Margir vilja líkja þessu verkefni við siðbót Lúters, en taka fram að forsendur og aðferð séu allt aðrar. Það er borðliggjandi að ef þetta verkefni tekst er um meiri háttar íslamska byltingu að ræða, ólík öðrum slíkum sem við eigum að venjast. Og víst er að þessi bylting mun mæta harðri andspyrnu alls kyns afturhaldsamra harðlínumanna sem misnota Íslam til alls kyns kúgunar og félagslegs taumhalds (sem þekkist líka úr ýmsum öðrum trúarbrögðum, ekki síst Kristni). Mæli með þessari stórmerkilegu grein.

Eitt svar to “Siðabót Tyrkja/íslömsk bylting.”

  1. Jón Helgi Says:

    Interesting – fyrst menn vilja hafa trú þá þarf eitthvað að gera.

    Hins vegar hef ég e-s séð ansi öfgafullar tilvitnanir úr Kóraninum án þess að ég sé e-r sérfræðingur í honum. Ef svo er þá væri nú kannski ráð að draga þá vitleysu fram líkt og margan öfgafullan boðskap biblíunnar og ræða það á opinskáan hátt í stað þess að „túlka“ fornritin á ásættanlegan hátt – er það ekki bara afskræming á því sem þar stendur.

    Ef vitleysan er dregin fram þá ætti slík umræða að stuðla að því að þessi fornu rit séu sett á viðeigandi stall: Lífsspeki úr fornöld þar sem margt er gott en mikið sem er úrelt enda bara gamlar og um margt úreldar bækur. Tímanum væri betur borgið að leggja áhersla á siðfræði án trúar. En … stundum þurfa menn að fara Krísuvíkurleiðina.
    Jon Helgi

Færðu inn athugasemd