Enuruppvakning

desember 5, 2010

Hér mun bloggsíða sem hófst fyrir alllöngu – og sem var tilraunaverkefni sem fjaraði út – verða endurreist. Hér mun útgerðarmaður hennar viðra „allskonar“ mál og málefni sem að honum sækja – og ætti að vera af nógu að taka. Fyrsta færsla mun smella hér inn í mjög nálægri framtíð og er það von að síðan muni endast lengur en í fyrstu atrennu.

Auglýsingar

Fitna farsinn – frelsisþjófar

mars 28, 2008

Ég rakst á nokkrar blaðagreinar um „mynd“ hollenska hægri öfgamannsins Geert Wilders, Fitna. Á vef Danmarks Radio , er frétt um komandi lögsókn Kurt Westergaard (Múhameðsteikningar, muniði?) gegn Geert Wilders vegna „þjófnaðar“ hans á teikningum KW af spámanninum (hvað er þetta með þessa hægri öfgamenn, af hverju þurfa þeir alltaf að stela frá öðrum?). Þetta er næstum því fyndið. Danskur „islamforsker“ segir í Politiken að þessi „mynd“ fjalli ekki um tjáningarfrelsi heldur eingöngu til að ögra fólki. Sama sagði hægrikonan Hirsi Ali. OK? Danski pólitíkusinn Naser Khader vill meina að „myndin“ sé í fyrsta lagi léleg og illa gerð og finnst asnalegt að stjórnvöld í Hollandi séu að skipta sér af þessu (hrædd við útflutning á túlipönum??). Hvað með að Wilders sé asnalegur, eða bara asni? Þessi „mynd“ sé ófrumleg endurvinnsla á gömlum klisjum og hann ypptir bara öxlum yfir kjánaskapnum. Demogogus Primus Dana, hægrifanatíkerinn Pia Kjærsgaard, reynir að æsa sig upp og segja okkur að við höfum „rétt“ til að móðga og ögra af því að öfgamenn séu raunveruleiki. Flott rök. En besta greinin er eftir breskan múslim sem ég hef talað um áður, sem er Ali Eteraz. En hann skrifar skemmtilega íróníska grein um þessa svokölluðu „mynd“ og gefur henni falleinkun, í fyrsta lagi fyrir ófrumlegheit og hugmyndafátækt (=“ritstuldur“, hægri öfgamenn aftur!). Það besta við „myndina“ sé soundtrackið eftir Tjækofskí. Ég mæli með þessari ágætu grein (og öðrum pistlum Ali Eteraz) sem konklúderar eiginlega á því að „idiots recognise one another“, og á þar við danspör eins og Wilders og „Íslamista“ sem nærast á hatri hvors annars. Einnig bendir Ali á að „mynd“ Wilders sé léleg eftirlíking (enn einn þjófnaður (ritstuldur) hægri öfgamanna, hvað er þetta eiginlega!?!) á óteljandi áróðursvídeóum öfgafullra Íslamista, en sé lélegri og viðvaningslegri, fyrir utan soundtrackið, sem sé byggt á vögguvísu frá Georgíu. Leiðtogar múslima í Hollandi hafa ásett sér að þegja þetta „listaverk“ í hel og langflestir múslimar hrista bara hausinn yfir þessum Hannesi Hólmsteini þeirra Hollendinga. Er ekki komið að því að menn hætti þessum fíflagangi og hætti að nota „tjáningafrelsi“ sem gólftusku eða klósettpappír? Mér er bara spurn.

Konur og „menning“ í Kína, Íran og Ísrael

mars 19, 2008

Ég var að rekast á nokkrar greinar um kvenn-imama í Kína (takk Erla), partígellur í Íran og blæjuberandi gyðingakonur í Ísrael. Já, svei mér þá! Í norðvesturhéruðum Kína hefur Íslam verið stundað síðan árið 650, valdhöfum ríkisins í miðjunni til nokkurs pirrings allar götur síðan – sem er varla frásögu færandi. En á þessu svæði er hefð fyrir að konur stjórni moskum og standi fyrir bænahaldi og allri annarri starfsemi, nema að kalla til bæna og leiða bænir karla. Það gerist með karlrödd í gegnum hátalara á veggnum frá nærliggjandi karlamosku. Umrædd grein er m.a. viðtal við hina 68 ára gömlu Ding Gui Zhi,sem hefur starfað sem imam um langt skeið. Hún leggur áherslu á mikilvægi þess að Íslam í Kína hafi kínversk áhrif og hafi rætur í kínverskri menningu. Staða kínverskra múslima hefur oft legið undir þrýstingi stjórnvalda, og nefnir konan sérsaklega tímabil „menningarbyltingar“ Mao Zedong sem „hörðu árin“. Það þarf varla að taka það fram að hugmyndafræði Maos (kommúnismi) byggðist á vestrænni veraldarhyggju á sama hátt og nazismi og fasismi. En það er önnur Ella. Ungar konur á umræddu svæði sækja sumar í að menntast sem imamar, einkum til að lyfta sér úr fátækt og kúgun en einnig af trúarlegum áhuga og lærdómsfýsn. Þetta er ein birtingarmynd Íslam (kínverskir múslimar á þessu svæði eru um 10 milljónir). Svo rakst ég á grein um partístand ungra kvenna í Tehran. Eins og margir vita, þá er stundaður nokkuð skír aðskilnaður karla og kvenna í hinu opinbera rými í flestum múslimasamfélögum. Partígellurnar í Tehran viðhalda (með hjálp siðgæðislöggunnar) þessari skiptingu með því að hittast og partía í lokuðum, földum lókölum, þar sem slæðan fellur, diskóið dunar og landa er jafnvel lyft í glasi. Þær segja að væntanleg menningarbylting hinnar mjög svo fjölmennu ungu kynslóðar byrji heima og/eða á svona stöðum. Þessi breyting er einnig að vinda upp á sig á kaffihúsum og á götum úti. Stiginn er skrítinn feludans þar sem báðir aðilar sjá hvor annan, horfast í augu og athuga hvor blikkar fyrst. Þessi kynslóð (sem er yfirgnæfandi hlutfall í Íran) hefur ekki mikið álit hvorki á klerkum né öðrum valdhöfum landsins, enda eru þeir logandi hræddir við þessa kynslóð. Að lokum sá ég merkilega grein um blæjubylgju meðal gyðingakvenna í Ísrael. Þar segir að hin raunverulega ástæða blæjunotkunar kvenna í miðausturlöndum sé að öllum líkindum löngu grafin í sandinn (varð hún kannski til vegna hans?). En umræddar gyðingakonur sem hafa tekið upp á því að ganga með blæju hafa verið stimplaðar sem geðsjúkar af rabbínum (sem eru allir karlar). Þessar konur vísa í heilaga texta Biblíunnar þar sem talað er um blæjunotkun kvenna við vissar aðstæður (t.d. Genesis 24:65). Í kjölfar þessarar „geðsjúku“ hegðunar hóps gyðingakvenna hafa menn farið að leita uppi heimildir í Gamla Testamentinu um blæjunotkun kvenna (oftast hefðarkvenna, eins og upprunalega var hjá múslimskum konum á sínum tíma). Þetta dæmi sýnir mögulega að arabar og gyðingar eigi sér að hluta til sameiginlegar rætur í sandinum, sem ætti ekki að vera óeðlilegt á meðal nágrannafólks. Vert til umhugsunar varðandi tengsl trúar, menningar og pólitíkur og hvernig hægt er að hrúga saman alls kyns fyrirbærum úr mörgum áttum og eðlisgera sem einhverja eina menningu, og tala t.d. um sem „íslamska menningu“, eða „kristna menningu“, eða „gyðingamenningu“ en það er vafasamt hvort slíkt sé yfirhöfuð til sem eitthvað eitt og samstætt. Samt er auðvelt og algengt að hnoða byssukúlur úr alls kyns samkrulli og demba því yfir saklaust fólk, eins og allt of mörg dæmi fyrr sem nú sanna, sem bendir á nauðsyn þess að gera sér grein fyrir því að menning er ekki föst, heilstæð stærð, heldur síbreytilegt ferli viðhorfa og athafna sem skarast á ótal vegu í mannheimum. Einhver sagði einu sinni að menning væri eins og fljótið hans Heraklítusar, en í það var bara hægt að stinga tánni einu sinni og aldrei aftur því fljótið er aldrei það sama, það er síbreytilegt þótt það virðist ekki breytast á yfirborðinu. Hættulegasta vopn óþokka sögunnar er eðlisgerfing menningar: „gyðingar eru svona, svona er þeirra menning, en okkar er æðri“. Allir vita hvernig það fór. Í dag er viðkvæðið: „þessi múslimska menning ógnar okkar menningu, sem er betri og æðri“. Þetta er hættulegt og heimskulegt, en getur komið mönnum á þing og til valda en einnig skapað hatur með skelfilegum eyðileggingum. Það má benda á að þetta ferli og þessi eðlisgerfing menningar (þar sem trúarbrögðum er beitt sem menningu) lifir enn góðu lífi á Balkanskaganum og allir ættu að muna hver birtingarmynd þessarar hugmyndafræði var, fyrir ekki svo löngu síðan. Og eins og Ghandi benti á þegar einhver nýlenduherrann ræddi um „vestræna menningu“ við hann, svaraði hann með því að segja að það væri ábyggilega góð hugmynd.

„Cool Islam“ í Frakklandi & fleira

mars 10, 2008

Það hefur mikið verið rætt um slæður, sharía, og annað í þeim dúr á þessari síðu. Ég hef þegar bent á nokkur atriði sem sýna að Íslam er sennilega að gangast undir veigamiklar breytingar, einkum á vesturlöndum – og er að öllum líkindum á afgerandi tímamótum. Ég benti á Kóran-bloggið á guardian.co.uk, þar sem fram fer opin umræða og frjálsleg túlkun á súrum Kóransins. Einnig benti ég á umfjöllun um róttæka aðgerð sem tyrknesk stjórnvöld eru að hrinda af stokkunum. Stór sveit fræðimanna: Íslamsérfræðinga, heimspekinga (líka frá „vestrinu“) og kristinna guðfræðinga hafa fengið það verkefni að ráðast í að gera róttæka endurskoðun á HADITH bálkunum (sem eru lagalegur grundvöllur íslam), kassera sumu og uppfæra annað. Einnig er verið að mennta hundruðir kvenna sem imama til að senda þær í sveitir landsins. Þetta lítur út fyrir að vera alger bylting. Svo eru ferskir straumar meðal franskra múslima, sem sumir vilja kalla „cool Islam“. Er hér um að ræða hreyfingu meðal ungra múslima á sviði listsköpunar, viðskipta og trúariðkunar. Þekktur franskur rappari og múslimi er með þann boðskap í tónlist sinni að múslimar eigi að taka fullan þátt í hinu veraldlega samfélagi og að allir – kristnir, múslimar, gyðingar, trúlausir – allir Frakkar – eigi að geta sameinast undir merkjum mannúðar og annarra sammannlegra gilda, sem öll trúarbrögð – og húmanismi – leggja áherslu á. Sjálfur er þessi rappari trúaður, praktíserandi múslimi (hann heitir Medine, fékk nafn sitt frá Medina). Fleiri ungir, franskir múslimar eru farnir að sameina viðskipti, listir og gildi hins veraldarvædda samfélags, án þess þó að láta af trú sinni. Þeir segjast vilja leggja eitthvað jákvætt og uppbyggjandi að mörkum til samfélagsins. Í greininni er viðtal við unga múslimska konu sem er að máta hefðbundna vestræna brúðarkjóla, en hún segir ungar múslimskar konur í auknum mæli giftast í venjulegu, hvítu brúðardressi, þó svo að imam sjái um vígsluna. Á endanum er rætt við imam að nafni Tariq Oubrou, sem vill bylta túlkun íslamskra texta og uppfæra þá í samræmi við nútímann og vestræn sekúlar samfélög. Hann vill fá kristna fræðimenn og heimspekinga til að leggja sitt af mörkum við þessa byltingu. Þetta er það sama og Tyrkir (= tyrkneska ríkið) eru að gera. En það er nokkuð dæmigert að þessar aðgerðir fá takmarkaða athygli í vestrænum fjölmiðlum sem selja fleiri eintök með því að birta æsifréttir um hættulega æsingamenn sem ætla sér að tortíma vestrænni menningu (sem Ghandi sagði að væri ágætis hugmynd, þ.e. vestræn menning).

Siðabót Tyrkja/íslömsk bylting.

febrúar 27, 2008

Ég sá í gær stórmerkilega grein á vef BBC varðandi áform Tyrkja um að gerbylta túlkun manna á íslam með því að endurskoða/endurtúlka allan HADITH bálk trúarbragðanna, sem er mjög mikill. Þar segir frá að tyrkneska ríkisstjórnin ætli að ráða her fræðimanna: íslamskra, en einnig kristinna og evrópskra heimspekinga, til að endurskoða allan hadith bálkinn og heimfæra hann á okkar tíma – en með því að fara aftur til tíma spámannsins og sniðganga allan þann menningarlega bagga sem þeir telja að hafi „mengað“ túlkanir á hadith (og Kóraninum). Einnig á að mennta og þjálfa 450 konur sem imama (bænapresta) og senda þær út í sveitir landsins til að útskýra hinn „upprunalega anda“ Íslam. Ætlunin er að skilja kjarnan frá hisminu: að fjarlægja alls kyns mismunandi forna og miður uppbyggilega siði staðbundinna menninga frá boðskap Kóransins og fyrirmælum hadith. Margir vilja líkja þessu verkefni við siðbót Lúters, en taka fram að forsendur og aðferð séu allt aðrar. Það er borðliggjandi að ef þetta verkefni tekst er um meiri háttar íslamska byltingu að ræða, ólík öðrum slíkum sem við eigum að venjast. Og víst er að þessi bylting mun mæta harðri andspyrnu alls kyns afturhaldsamra harðlínumanna sem misnota Íslam til alls kyns kúgunar og félagslegs taumhalds (sem þekkist líka úr ýmsum öðrum trúarbrögðum, ekki síst Kristni). Mæli með þessari stórmerkilegu grein.

Íslam og veraldarhyggja

febrúar 17, 2008

Hér langar mig að viðra hugmyndir franska fræðimannsins og Íslamsérfræðingsins Olivier Roy, en hann hefur einkum rannsakað Íslam í Evrópu og tengsl Íslam við evrópska þjóðríkið og veraldarvæðingu. Hann telur það ekki gefið að öll samfélög þurfi að ganga í gegnum sama ferlið og vesturlönd til að tileinka sér lýðræði. Hvað varðar Íslam er ein forsendan sú að gamlar hefðir eru að missa tökin í mörgum samfélögum, ekki síst meðal evrópskra múslima. Hin umdeilda kenning um árekstra siðmenninga, þar sem forsendan var að menning væri grundvölluð á trúarbrögðum og trúarbrögð hefðu þar af leiðandi áhrif á hina pólitísku menningu, er að hruni komin (ef hún þá stóð nokkurn tíman á fótunum). Roy bendir á að ákveðin aftenging eigi sér stað á milli tveggja veruleika: menningarlegra hefða og endurmyndun trúarlegra gilda og hefða óháð sérstökum tilteknum menningum. Þessi þróun er, segir Roy, eitt af afkvæmum hnattvæðingar sem hefur farið sigurför um heiminn. Roy telur vandamálið með Íslam, hvað varðar þessa aftengingu, vera að hún styrki fúndamentalisma ekki síður en frjálslynd viðhorf til trúmála, hvað þá veraldarhyggju. Þetta sést t.d. á því að lýðræðislegar kosningar í löndum múslima hafa oft komið íslamískum flokkum til valda (sbr. Alsír, þó barið á bak aftur; Hamas í Palestínu). Vegna andúðar og hræðslu við áhrif Íslamista hafa vesturveldi stutt veraldlegar harðstjórnir í miðausturlöndum í þeirri von að koma á veraldlegu samfélagi (hvort sem það er yfirskin eða ekki). Afleiðingin er sú að í hugum almennings í þessum löndum tengist veraldleg stjórn einræði og kúgun, studd af vestrænum vopnum og peningum (einhvers konar ný-nýlendustefna), en lýðræðislegar kosningar tengjast Íslamistum. Samkvæmt Roy mun lýðræði í miðausturlöndum ekki virka án einhvers konar ríkisforms (sbr. Hamas í Palestínu, þó að við mjög erfiðar aðstæður sé). En hvað með Íslam?, spyr Roy. Það að vilja byggja lög/samfélag á sharía virðist þjóna þeim tilgangi að friðþægja Íslamista og byggja þannig upp eigin ríkisvitund gegn hinni hröðu „vesturvæðingu“. Við þetta verður til mjög íhaldsöm útgáfa af Íslam, byggð á ströngum lögum og einstrengingslegum siðferðislegum gildum. Annað sem Roy bendir á er hin vaxandi einstaklingsvæðing trúariðkunar og endurskoðun trúarbragða án íhlutunar hinna hefðbundnu menninga, reynsluheim minnihlutahópa (á vesturlöndum – „annarrarkynslóðarinflytjendur“) í vestrinu og virkjun lýðræðis til að losna við (veraldlega) einræðisherra. Þessa þætti telur Roy að munu smám saman síast ínn í vitund fólks án þess að minnka vægi trúarvitundar. Það er ekki hægt að þvinga á lýðræði utan frá, en Roy telur að ákveðið ferli lýðræðisvæðingar sé að eiga sér stað á forsendum Íslam, og telur hann Tyrkland vera gott dæmi, en þar hefur sá flokkur sem er við völd og sem hingað til hefur verið talinn íslamískur tengt saman lýðræði, trúarbrögð og kapítalisma (a la „protestan ethic of capitalism“). Roy telur hvorki þvingaða veraldarvæðingu né fjölmenningarhyggju vera svarið, því hvort tveggja gangi út frá því að það séu órjúfanleg bönd á milli etnískrar menningar og trúar, þ.e. að t.d. Íslam sé afmörkuð og eðlislæg menning (og þar með ósamræmanleg veraldlegri hugsun). Roy bendir á að menningarlegar skírskotanir séu að minnka á kostnað trúarlegrar sjálfsvitundar á eigin forsendum, að rof eigi sér stað á milli trúar og menningar/samfélags (sem geti leitt til fúndamentalisma og einangrunar). Flestir múslimar á vesturlöndum vilja vera viðurkenndir bæði sem múslimar og borgarar innan ramma hinna evrópsku þjóðríkja í stað þess að vera skilgreindir sem einhvers konar etnískur/menningarlegur minnihluti. En það er á brattan að sækja því þeir þurfa viðvarandi að horfast í augu við þá fordóma að trú og menning sé það sama og þar af leiðandi munu þeir lengst af vera „útlendingar“, eða framandi „hinir“ og oftar en ekki lúta í lægra haldi í baráttunni um gæði samfélagsins og þannig endurskapa og viðhalda ákveðinni jaðarstöðu sem lágstétt og fjarlægð við „meirihlutassamfélagið“.

Sharía eða ekki sharía

febrúar 16, 2008

Mikið fjaðrafok fór í gang í landi Engla og víðar þegar erkiklerkur ensku biskupakirkjunnar lét þau orð flakka, yfir hausamótunum á lærðum laganna og kirkjunnar mönnum, að hin íslömsku sharíalög gætu virkað samhliða almennum breskum lögum, í vissum tilfellum (aðallega í hjúskaparmálum og öðrum tengdum málum). Biskup orðaði það þannig að þessi staða væri óhjákvæmileg og að sharía dómstólar væru í raun starfandi í Englandi á þennan hátt. Hann tók fram að gyðingar í Englandi starfræktu hliðstæðan dóm. Fulltrúar ríkisvaldsins settu sig strax í viðbragðstöðu og undirstrikuðu að landslög giltu jafnt fyrir alla. Sem þau gera, eða gera þau það (Jón og séra Jón, en það er önnur Ella). Maður að nafni Asim Siddiqui (hægt að gúggla hann), enskur múslimi sem er það sem kallast „professional“, hefur, einn af mörgum, kommenterað á tölu biskups . Hann bendir á að sharía hafi svo breyða skírskotun sem höfði bæði til persónulegra sem opinberra þátta, og sé mjög svo opin fyrir túlkunum, allt eftir stað og stund (þ.e. skv. menningarlegu og sögulegu samhengi) að það sé mjög vafasamt að staðhæfa um sharía í svart/hvítum vendingum og vafasömum alhæfingum byggðum á vankunnáttu og fordómum (t.d. um steinkast og afhöggnar hendur). Hann bendir einnig á að flestir megin þættir sharíalaga falli að mestu leyti að breskum lögum. Þeir þættir sharía sem biskupinn fjallaði einkum um snúa að fjölskyldu- og fjárhagsmálum, þ.e. borgaralegum málum. Samkvæmt Asim Siddiqui dettur engum heilvita manni í hug að ætla að virkja forna refsidóma (sbr. hér að ofan) í nútíma samfélagi. Íslömsk sérákvæði varðandi viðskipti hafa fyrir löngu verið felld inn í bresk viðskiptalög, svo dæmi sé tekið. Hvað varðar fjölskyldulöggjöf þá eru flestir múslimar á því að sharíalög gildi svo fremi sem þau brjóti ekki bresk lög. Konur í skilnaðarmálum hafa sóst eftir að útkljá sín mál fyrir sharía dómara, fyrst og fremst til að fá brúaðarauðinn endurgreiddan, nokkuð sem bresk lög dekka ekki, en er samt ekki ólöglegt samkvæmt þeim. Það er álit flestra breskra múslima, skv. Asim, að þegar „íslömsk lög“ stangast á við bresk lög, verði þau íslömsku að víkja. Með öðrum orðum, biskupinn var ekki að mæla með því að fólk verði grýtt eða handhöggvið, en umfjöllun hans, sem þótti nærgætin, en nokkuð akademísk, enda um flókið mál að ræða, var snúið alla vega (aðallega á haus) í æsipésum enskum, eins og þeim er einum lagið. Það skal tekið fram að ummæli klerks féllu í misgóðan jarðveg meðal breskra múslima og voru margir ósammála honum, þannig að í þessu máli eins og mörgum öðrum eru múslimar ekki einhver „einn“ hópur, heldur jafn fjölskrúðugur og margradda og allir aðrir. En biskupinn kom af stað þarfri umræðu um að þróun sögunnar er hreyfing og breytingar og mönnum er best að vera vakandi og bregðast við á meðvitaðan og skynsaman hátt svo sagan stingi þá ekki af.

Hugmyndafræði/flóð

febrúar 15, 2008

Nokkrir smá punktar, meðan ég er á vatnspumpuvaktinni í kjallaranum. Fyrst langar mig að benda á þá mjög svo fínu umræðu um Kóraninn og íslam á Kóranbloggi Guardian. Þar skiptast margir áhugasamir og lærðir á skoðunum hvað varðar merkingu þessarar merku bókar. Fólk setur spurningamerki við margt, er ósammála um enn fleira en allt er á siðsamlegum nótum, fátt um öfgafull útbrot. Mæli með þessari sérstöku bloggsíðu fyrir áhugafólk um þetta viðfangsefni. En að allt öðru. Þar sem ég bograði yfir vatnspumpunni rifjaðist upp fyrir mér ákveðið atriði – út frá hræðsluhugmyndum „okkar“ um ógn Austursins meðal okkar. Ef litið er á 20. öldina og öll þau yfirgengilegu ógnarverk sem voru framin á því merka tímabili, liggur í augum uppi að þau trúarbrögð, og þær öfgar sem forrituðu þær skelfingar var vestræn veraldarhyggja (kommúnismi, nasismi, fasismi, og kapítalismi): Hitler, Stalín, Pol Plot, Franco, Pinoche, Maó, þarf að fara lengra? Svo maður minnist nú ekki á Nýlendustefnuna (sem hafði verið í gangi í hálft árþúsund – og er enn). Það má jafnvel nefna hinn hnattvædda kapítalisma nútímans í sömu andrá, sem hefur rústað heilu samfélögunum á okkar dögum. Það er ekki svo vitlaust að halla huganum aðeins að hlut þessara hugmyndafræða hvað varðar ómældar hörmungar af manna völdum. Sú ógn sem við teljum steðja af íslömskum ógnarverkamönnum (ég ætla ekki að taka hanskann upp fyrir ofbeldi af neinu tagi, aldrei) eru smámunir miðað við þann hrylling sem framinn var í nafni veraldarhyggjunnar á 20. öld, og oftast undir fána framfara. Hér er bara bent á þetta til að setja hluti í smá sögulegt samhengi. Kveikjan að þessum hugleiðingum, svona fyrir utan vatnspumpuna í kjallaranum, var fullyrðing greinarhöfundar í nýjasta Mannlífi um að ákveðin hræðsluáróðursbók dönsk væri „stórmerkileg og afar þörf“ um eitt mesta vandamál vesturlanda (sjá síðustu færslu). Við ættum að líta okkur nær hvað varðar ógnarverk og almenn illindi, „við“ höfum verið fullfær um að sinna þeim í gengum tíðina, og okkur hefur líka tekist bærilega í seinni tíð að flytja þá starfsemi til fjarlægra landa, undir sömu formerkjum og áður og fengið sumt af því í hausinn aftur. Þarf að fara niður og huga að flóðpumpunni.

Samfélag múslima í Mannlífi

febrúar 15, 2008

Umfjöllun Mannlífs (31.jan.08) um „samfélag múslima á Íslandi“ var frekar fyrirsjáanleg og í stíl við þann gæðastaðal sem ríkir meðal margra álíka pésa. Á blaðsíðu 6 er mynd af ímynd „vonda kallsins“, Arabi með byssu og barn ásamt meðfylgjandi texta: „samfélag múslima á Íslandi“. Sem sagt, þetta er andlit þess samfélags. Undirliggjandi áróðurstækni klikkar ekki. Hvað er þessi inngangsmynd að segja okkur? Að barnið sé gísl vonda Arabans? Að vondi Arabinn sé að kenna barninu drápstækni, að innprennta illsku Íslam í saklausan huga barnsins? Og á Íslandi? Eða er þetta bara saklaust grín? OK, flettum áfram. Á bls. 26 er opnumynd frá bænahaldi múslima í húsakynnum (mosku) þeirra í Ármúlanum ásamt meðfylgjandi texta um að „málefni þeirra [hafi] farið nokkuð hátt að undanförnu[…]“. Er það þannig? Það var smá frétt í fjölmiðlum frá hátíð múslima (þar sem undirritaður var til staðar) á Íslandi um miðjan desember til minningar um fórn Abrahams ættfaðirs. Mikið meira hefur það nú varla verið, sú umræða, enda eru múslimar allt að ósýnilegur (og smár) hópur hér á skeri. Með þessari svuntu er ágætis viðtal við Salman Tamini, formann Félags múslima, enda er sá maður viðkunnalegur mjög. Á bls. 32 er ágætis viðtal við Brahim Boutarhroucht um konumissi og aðrar alvörur lífsins. Svo kemur grein um danska bók um íslamisma (og naívista) eftir danskt par sem eru yfirlýstir íslamófóbistar. Þessi bók virðist mega flokka undir hræðsluáróður (ég hef ekki lesið hana, en séð umfjöllun, og kannast við skoðanir höfundanna), og höfundur greinarinnar segir okkur að þetta sé „stórmerkileg og afar þörf bók“ um „alvarlegasta vandamál“ vesturlandabúa (hefur hún aldrei heyrt um G.W.Bush?). Með þessari grein eru tilvísanir í þekktustu hræðslumangara (scaremongers) á væng íslamófóbista. Síðan birtis vondi kallinn með byssuna og barnið aftur og reynist það vera afi með barnabarni sínu (íslensku) að gantast í Palestínu og með fylgir grein um uppgjör sonar (barnsins á myndinni) og föður (sonur vonda kallsins), þar sem ágreiningur um trúmál var kveikjan. Kannski að Freud ætti að kíkja á afann með byssuna. Að lokum er viðtal við múslimska konu, Ashura Ramadhan, frá Zansibar, sem finnst gott að búa á Íslandi. Með greininni er fín mynd af þessari huggulegu konu, en bíddu nú aðeins, hvar er slæðan? Berar axlir? Detta nú allar dauðar… Það er gífurlegur menningarlegur fjölbreytileiki innan vébanda hins „múslimska heims“ og það sést ágætlega á umfjöllun Mannlífs um nokkrar múslimskar sálir á Íslandi. En það er dæmigert að það er ekki hægt að bera þetta efni á borð öðru vísi en að krydda það með hræðsluáróðri og fordómum. Ætli umfjöllun um „samfélag kaþólskra“ mundi ganga án umfjöllunar um glæpi hennar á miðöldum eða barnaníðinga hennar á okkar dögum. Ætli dálkahöfundar Mannlífs sæju sig nauðbeygða til að hafa það með? Svari því hver sem vill.

Slæðan aftur

febrúar 15, 2008

Einfaldur klútur sem konur vefja um höfuð sér, einkum múslimskar konur, er orðin miðpunktur umræðu á vesturlöndum. Tyrkir voru nýlega að breyta lögum varðandi slæðuna á þá leið að konum er leyfilegt að bera hana innan svæða háskóla, en það hafði verið bannað áratugum saman til að undirstrika hina veraldlegu (secular) stöðu tyrkneska ríkisins. Ég hef áður fjallað um þetta fyrirbæri á þessi bloggi en hér er aðeins öðru vísi nálgun.

Þetta einfalda höfuðfat, eða slæða, er farið að hafa ótrúlega mikla og táknhlaðna merkingu í Evrópu og Tyrklandi, sem skilgreina sig sem veraldleg (secular) menningarsvæði. Eins og áður hefur verið rætt, þá skiptir sköpum hvernig hlutir (eða fólk) eru skilgreindir. Er slæðan trúarlegt tákn múslimskra kvenna? Milljónir múslimskra kvenna ganga EKKI með slæðu. Er slæðan upprunalega skjól gegn sólarljósinu? Sandfoki? Er slæðan upprunalega menningarleg og með staðbundin einkenni? Ganga ekki margar eldri/trúaðar (kristnar) konur á Grikklandi, Spáni, Rússlandi og Ítalíu líka með slæður? Af hverju talar einginn um það? Slæðan virðist vera orðin fyrst og fremst tákn sjálfsákvörunaréttar ungra múslimskra kvenna í Evrópu, tákn menningarlegrar staðsetningar og sjálfsmyndarsköpunar. Á þann hátt má sjá slæðuna sem blöndu af pólitískri/menningarlegri staðhæfingu og tísku. Mini-pilsin á 7. áratugnum voru bæði tíska og tákn um aukið kynferðislegt frelsi kvenna samfara tilurð p-pillunnar. Að sumu leyti er slæðan orðin kvenfrelsistákn eins og mini-pilsin, þó birtingarmyndin sé ólík og pólitískur undirtónn sterkari, en að sama skapi hættulegur. Er þetta ekki líka spurning um vald á opinberu rými? Fer það kannski í taugarnar á „heimamönnum“ að „gestirnir/hinir“ skuli voga sér að setja svona áberandi og einkennandi svip á götumyndina? Þetta er kannski ekki svo einfalt. Þjóðríkið (t.d. Frakkland eða Tyrkland) vill þvinga ákveðna þjóðfélagshópa með lögum til að haga sér á ákveðinn hátt á forsendum ríkisins, þar sem hugmyndin er sú að allir eigi að lúta sömu kvöðum að ofan. Er ekki litið á slæðunotkun ungra (og oft vel menntaðra og upplýstra evrópskra kvenna) sem óþekkt eða allt að því uppreisn gegn ríkjandi gildum? Andspyrna gegn status quo? Það má líta á þetta frá ýmsum hornum, en að halda því fram að slæðan í þessu samhengi sé engöngu tákn kúgunar karlaveldisins og feðraveldistrúar er gróf einföldun og stenst ekki skoðun. Sumar konur ganga með slæðu vegna trúhneigðar en alls ekki allar. Slæðan er sem sagt orðið mjög öflugt og flókið tákn en það eru þeir sem vilja banna hana sem hafa gefið þessum klút þetta tákngildi. Þegar þrýstingur ríkisvaldsins verður of mikill gegn ákveðum hópum eykst andspyrnan að sama skapi: Því meira mál sem stjórnvöld gera úr slæðunni þeim mun útbreyddari verður hún, hún verður tákn menningarlegs sjálfstæðis og þjóðfélagslegs andófs. Tákn íhaldseminnar breytist í tákn félagslegrar óhlíðni.